Fimmtudaginn 16. maí kl. 13:00 mun Kristján Guðmundur Jóhannsson verja meistaraprófsritgerð sína í sjávartengdri nýsköpun við Háskólasetur Vestfjarða. Ritgerðin ber titilinn Er hagkvæmt að nýta ljósátu í Ísafjarðardjúpi? Vörnin markar tímamót í starfsemi Háskólasetursins því þetta er fyrsta meistaraprófsvörnin í einstaklingsmiðaða meistaranáminu í sjávartengdri nýsköpun sem sett var á fót árið 2012.
Leiðbeinendur verkefnisins eru Einar Hreinsson, M.Sc. sjávarútvegsfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun og Sigríður Kristjánsdóttir, M.Sc. framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu. Prófdómari er dr. Ögmundur Knútsson, dósent við Viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri.
Útdráttur
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hagkvæmni þess að nýta ljósátu í Ísafjarðardjúp, sem eru sviflæg krabbadýr og líkjast smávaxinni rækju að útliti. Rannsóknir hafa leitt í ljós að umtalsvert magn finnst í Ísafjarðardjúpi. Ljósáta, sem almennt nefnist krill, er veidd á nokkrum svæðum í heiminum, en í mestu magni á hafsvæði við Suðurheimskautið. Greint er frá helstu rannsóknum hér við land auk þess sem farið er yfir lagalegt umhverfi nýtingar og hvernig veiðum er stýrt annars staðar. Margs konar afurðir eru framleiddar úr ljósátu og m.a. fæðubótarefni, sem vaxandi eftirspurn er eftir víða um lönd. Norðmenn og Kínverjar hafa undanfarin ár fjárfest mikið í veiðum og vinnslu á ljósátu. Lögð er fram hugmynd að nýsköpunarfyrirtæki, sem myndi sjá um veiðar og vinnslu á ljósátu úr Ísafjarðardjúpi og sett upp reiknilíkan og hugmyndir að markaðssetningu afurða.