Ætlar Alþingi hunsa skýrslu Sameinuðu þjóðanna?

Eftirfarandi fréttatilkynning hefur borist frá Landssambandi veiðifélaga:

IPBES nefnd Sameinu þjóðanna kemst að þeirri hrollvekjandi niðurstöðu um stöðu lífríkisins heimsins að allt að ein milljón plöntu og dýrategunda sé í útrýmingarhættu. Orsakirnar eru margar en meðal þess eru breytt notkun hafs og lands og áhrif af ágengum plöntum og dýrum. Skiljanlega veldur þetta áhyggjum allra þeirra sem á horfa.

En eðlilegt er að íslensk stjórnvöld líti sér nær. Stjórnvöld hafa heimilað uppbyggingu eldis á frjóum norskum laxi í opnum sjókvíum. Dæmin hafa sýnt að lax sleppur úr slíku eldi og gengur upp í ár og blandast villtum stofnum. Með því eyðir hann erfðaeinkennum stofnanna eins og ágengar lífverur gera sem fjallað er um í skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Augljóst dæmi um þetta er erfðamengun eldislaxa við litla laxastofna á suðurfjörðum Vestfjarða. Eldislaxinn gengur í árnar og nú hafa fyrstu eldisseiðin mælst í ánum. Öll gögn benda til þess að þessir stofnar muni á fáum árum hverfa sem slíkir. Og eftir því sem eldið eykst og fleiri miljónir frjórra laxa eru alinn í opnum kvíum eykst áhættan fyrir þá laxastofna sem fjær liggja.

Fyrir liggur frumvarp að breytingum á fiskeldislögum. Í frumvarpinu er alfarið litið framhjá þeirri hættu sem varað er við í skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Þar er engin umfjöllun um eldi á framandi stofni í ótraustum eldisbúnaði sem ógnar fjölbreytileika erfðamengis innlendra laxastofna og hefur ófyrirséð mengunaráhrif á hafið og nálæga nytjastofna. Ekkert í vinnubrögðum stjórnvalda undanfarið ár bendir til þess að stjórnvöld taki þau málefni sem koma fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna alvarlega. Þvert í móti hafa grundvallar breytingar verið gerðar á frumvarpinu sem ganga í þá átt að veikja varnir fyrir umhverfið og opna fyrir árhrif stjórnmála og norskra stórfyrirtækja á áhættumat um erfðablöndun. Umsögn og meðferð umhverfisnefndar Alþingis á málinu er síðan kapítuli útaf fyrir sig, enda voru einu sérfræðingarnir sem nefndin kallaði á sinn fund, þeir sem hafa verið að vinna launuð störf fyrir sjókvíeldið.

Alþingi hefur einstakt tækifæri í vor til að móta afgerandi stefnu í málefnum fiskeldis þar sem tekið er fullt tillit til umhverfisins. Marka verður skýra stefnu í lögum um að fiskeldi skuli þróast á sjálfbæran hátt. Þar verði mörkuð sú stefna að öll aukning í sjóeldi verði aðeins leyfð í lokuð kerfi eða með notkun geldstofna. Lög og reglur þurfa að vera þannig að þau verndi umhverfið en veiti ekki erlendum stórfyrirtækjum opið veiðileyfi á villta náttúru Íslands. Undirlægjuháttur stjórnvalda við umhverfissóðaskap norsku stórfyrirtækjanna er ekki í boði lengur. Skýrsla Sameinuðu þjóðanna er skýr skilaboð um að lengra verður ekki gengið og skorað er á Alþingi að taka þau skilaboð alvarlega.

Formaður landssambands veiðifélaga er Jón Helgi Björnsson.

DEILA