Snjóflóðavarnir fyrir 21 milljarð króna

Frá Siglufirði þar sem ráðstefnan var haldin.

Á alþjóðlegri ráðstefnu um snjóflóðavarnir á Siglufirði í byrjun apríl 2019 kom fram að heildarkostnaður vegna þessara framkvæmda við snjóflóavarnir á árunum 1996–2018 er um 21 milljarður kr. á núgildandi verðlagi og áætlaður kostnaður vegna ólokinna framkvæmda er um 19 milljarðar kr.

Eftir mannskæðustu náttúruhamfarir seinni tíma á Íslandi á árinu 1995 með þeim afleiðingum að 34 létu lífið í tveimur vestfirskum sjávarþorpum var gripið til róttækra aðgerða til þess að tryggja öryggi íbúa á ofanflóðahættusvæðum.

Frá 1996 hefur verið unnið hættumat fyrir 23 staði á landinu en hættumati er ólokið fyrir einn. Alls hafa verið reistar ofanflóðavarnir á 15 stöðum. Undirbúningur framkvæmda er langt kominn fyrir fimm til viðbótar. Þá er unnið að frumundirbúningi verkefna á sjö stöðum. Alls hafa verið reistir 12 leiðigarðar, 17 þvergarðar og 2 fleygar sem verja stakar byggingar. Reistir hafa verið um 9,7 km af stoðvirkjum á hugsanlegum upptakasvæðum snjóflóða. Kostnaðurinn er orðinn 21 milljarður króna eins fyrr greinir og óunnið er fyrir 19 milljarða króna til viðbótar.

Fram kom á ráðstefnunni að yfir 40 flóð hafa fallið á garða sem reistir hafa verið frá flóðunum á Vestfjörðum árið 1995.

Útlínur snjóflóða sem fallið hafa á Flateyri síðan varnargarðar voru reistir ofan þorpsins á
árunum 1996–1998. Sjá má hvernig leiðigarðarnir undir Innra-Bæjargili og Skollahvilft beina snjóflóðunum frá bygginni. Síðan 1997 hafa níu snjóflóð fallið niður með Skollahvilftargarðinum og fimm niður með garðinum undir Innra-Bæjargili.

DEILA