Um tvöfalt fleiri eru andsnúnir laxeldi í opnum sjókvíum en fylgjandi. Þetta kemur fram í könnun MMR þar sem spurt var um afstöðu landsmanna til laxeldis í opnum sjókvíum.
Um 45% þeirra sem tóku afstöðu sögðust vera mjög eða frekar neikvæðir gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum. Um 23% aðspurðra voru mjög eða frekar jákvæðir og 32% voru hvorki jákvæðir né neikvæðir.
Könnunin var unnin fyrir NASF, verndarsjóð villtra laxastofna í Norður Atlandshafi.
Spurt var: Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ert þú gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum?
Könnunin var framkvæmd dagana 11. – 13. apríl 2019. Alls voru 1.003 spurðir og tóku 878 afstöðu, eða um 88%, afstöðu til spurningarinnar. 125 tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.
Um 25% aðspurðra sögðust vera mjög neikvæðir gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum, 20% voru frekar neikvæðir, sem fyrr segir voru 32% hvorki neikvæðir né jákvæðir, 17% voru frekar jákvæðir og aðeins 6% aðspurðra voru mjög jákvæðir gagnvart starfseminni.
„Þessar niðurstöður benda fyrst og fremst til þess að fólk er meðvitað um umhverfismál og setur því fyrirvara á starfsemi sem hefur slæm áhrif á umhverfið, sem laxeldi í opnum sjókvíum gerir svo sannarlega. Hér á landi eru fyrirtaks aðstæður til að byggja upp öflugt og arðsamt fiskeldi en á mun betri hátt en nú er gert og í sátt við náttúru landsins. Það er sú leið sem við Íslendingar eigum að stefna að,“ segir Friðleifur Guðmundsson, stjórnaformaður Verndarsjóðs villtra laxastofna, North Atlantic Salmon Fund (NASF)
Sé greint eftir kynjum þá er fjöldi neikvæðra sú sama en um 9% fleiri karlar eru jákvæðir en konur.
Verulegur munur er á afstöðu eftir búsetu. Á höfuðborgarsvæðinu eru 50% neikvæðir ( 27% mjög og 23% frekar) en utan þess eru 37% neikvæðir (21% mjög og 16% frekar). Jákvæðir á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt könnuninni eru 17% ( 4% mjög og 13% frekar) en 32% utan þess (9% mjög og 23% frekar).
Athyglisvert er að langmest jákvæðnin er hjá bændum og sjómönnum eða 45% en mesta neikvæðnin í hópi sérfræðinga og iðnaðarmanna (51%). Minnsta neikvæðnin er í hópi bænda og sjómanna (28%). Minnsta jákvæðnin er hjá námsmönnum (12%).
Þetta eru töluvert aðrar niðurstöður en í könnun Gallup sem gerð var í nóvember 2018 fyrir Vestfjarðastofu. Þar voru niðurstöðurnar þær að 46,3% landsmanna eru jákvæðir gagnvart fiskeldi í sjó á Vestfjörðum en 29,6% eru neikvæðir og 24,1% eru hvorki jákvæðir né neikvæðir.
Athuga ber að spurningarnar eru ólíkar en fyrir Vestfjarðastofu var spurt: Ertu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) gagnvart fiskeldi í sjó á Vestfjörðum?
Það er tvennt sem skilur spurningarnar að. Fyrra atriði er staðsetningin Vestfirðir og hitt atriðið er opnar kvíar. Ef reynt er að draga ályktanir af þessu virðast margir líta á sjókvíeldi á Vestfjörðum jákvæðum augum en framkvæmd með opnum kvíum með neikvæðum augum.