Tveir Ísfirðingar urðu Evrópumeistarar í íslenskri glímu á móti í Keflavík í gær. Glímusamband Íslands stendur að mótinu ásamt erlendum samtökum. Keppt er í keltneskum fangbrögðum og eru keppnisgreinar þrjár, íslensk glíma, hryggspenna (backhold, skosk fangbrögð) og gouren sem eru fangbrögð sem stunduð eru á Bretaníuskaga í Frakklandi. Koma keppendur frá þessum svæðum í Evrópu.
Í gær var keppt í glímu og keppendum skipt í nokkra þyngdarflokka. Ísfirðingurinn Sigurður Óli Rúnarsson fékk gull í -100 kg flokki og Einar Torfi Torfason frá Hnífsdal varð hlutskarpastur í -62 kg flokki.Bera þeir nafnbótina Evrópumeistari í glímu.
Í dag og á laugardaginn verður keppt í hinum fangbrögðunum og má vænta þess að Íslendingarnir eigi erfiðara uppdráttar þar sem í þeim fangbrögðum eru aðrir keppendur með forskot.