Útvarpsmaðurinn góðkunni Guðni Már Henningsson opnar í dag málverkasýningu á Ísafirði. Sýningin verður á veitingastaðnum Mamma Nína frá kl 16. Þorsteinn J. Tómasson, eigandi Mömmu Nínu og æskuvinur Guðna Más annast sýninguna og mun bjoða upp á veitingar við opnunina.
Guðni Már er búsettur á Tenerife á Spáni og sagði í samtali við Bæjarins besta að hann hefði málið síðustu 8 – 10 árin og sérstaklega eftir að hann fluttist til Tenerife. „Ég er með sýningu hér á Tenerife í gangi og hún hefur gengið vel“ sagði Guðni Már.
„Allar myndirnar sækja í einhver uppáhaldslög mín erlend og heita eftir lögunum. Það er t.d. lög eftir Stones og Bítlana. En ég held mest upp á Bob Dylan. Þá finnst mér gaman að mála löf eftir David Bowie. Hann var svo myndrænn í lögum sínum enda var ahnn mikill málverkasafnari.“
Sýningin er sölusýning. Þá sagði Guðni Már að til sölu væru einnig siðustu eintökin af ljóðabók hans, sem hann gaf út á Tenerife og heitir „þar sem kaffið kólnar ekki“.
Eins og fram er komið er Guðni Már Henningsson búsettur á Tenerife í borginni Santa Cruz de Tenerife. Hann flutti fyrir ári síðan og sagði ástæðuna vera þá að hann gæti ekki lifað af lífeyrisgreiðslum sínum heima á Íslandi. Á Spáni yrði honum meira úr peningunum þar sem allt verðlag er mun lægra en á Íslandi.