Ríkið gerir kröfur um land í Barðastrandarsýslu

Kröfugerð ríkisins fyrir Óbyggðanefnd til lands í Barðastrandarsýslu hefur verið lögð fram og kynnt. Lögum samkvæmt á Óbyggðanefnd að úrskurða um eignarhald á landi utan eignarlanda. Fjármála- og efnahagsráðherra á að láta athuga skjöl og gerninga um eignarhald og síðan að gera kröfu um það land sem hann telur að eigi að tilheyra ríkinu. Óbyggðanefnd sker úr um og síðan er hægt að skjóta úrskurðum hennar til dómstóla.

Landinu er skipt í svæði og hefur óbyggðanefndin þegar lokið afgreiðslu á 84% af flatarmáli landsins en þjóðlendulögin eru frá 1998. Eitt af síðustu svæðunum sem tekin verða fyrir er Barðarstrandarsýsla.

Krafa ríkisins er að fimm tilgreind svæði í Barðastrandarsýslu verði úrskurðuð þjóðlenda og þar með ekki eignarland. Þau eru:

  1. Landið Hvannahlíð sem er upp af Þorskafirði og nær að sýsumörkum við Súðavíkurhrepp.
  2. Skálmardalsheiði sem er í landi Reykhólahrepps og liggur að Vesturbyggð.
  3. Auðshaugsland í Kjálkafirði sem er í Vesturbyggð.
  4. Vatnsfjörður friðland. Stórt landsvæði í Vesturbyggð, sem liggur að Reykhólahreppi og Ísafjarðarbæ.
  5. Bæjarbjarg austur af Látrabjargi. Því er í kröfunni lýst svo: Upphafspunktur er við sjó í miðri Saxagjá (1). Saxagjá er fylgt frá sjó og upp á bjargið (2) og svo austur eftir vatnshalla suður af fjallinu fyrir norðan Djúpadal allt í hæsta punkt á fjalli fyrir norðan Geldingsskorardal (3). Þaðan lóðrétt suður til sjávar (4) og strandlengjunni síðan fylgt vestur í upphafspunkt í miðri Saxagjá.

Nú taka þeir til varna sem telja sig eiga það land sem ríkið gerir kröfu um að verði lýst þjóðlenda. Eru það eigendur jarða sem telja að umrætt land falli undir þeirra jörð.

DEILA