Fyrirsögn dagsins er þessi: Gleðilega páska. En ef ég ætti að hafa undirfyrirsögn líkt og venjana er í flestum dagblöðum þá yrði hún svona: Illu snúið til góðs.
Það á við um hina kristnu páska. Á föstudaginn langa þá minntumst við þess að Jesús Kristur var krossfestur. Hann dó á krossinum. Það var sorgardagur þegar boðberi kærleikans, guðssonurinn var deyddur á krossi. En í dag er gleðidagur vegna þess að Jesús Kristur er upprisinn. Konur fóru út að gröf Jesú í morgun og hún var tóm. Og engill sagði konunum að Jesús væri upprisinn. Og þegar konur sneru frá gröfinni þá birtist Jesús þeim upprisinn. Illu hafði verið snúið til góðs. Dauðinn hafði verið sigraður, dauða hafði verið breytt í líf, eilíft líf. Þetta gerir páskana að gleðihátíð.
En þetta gildir einnig um páska náttúrunnar. Já, náttúran heldur páska. Páskar eru vorhátíð, ávallt haldnir eftir vorjafndægur þegar dagurinn fer að vera lengri en nóttin. Og þá kemur vorið eftir langan vetur. Trén fara að bruma, krókusar stinga sprota sínum upp úr jörðinni. Og fuglarnir eru farnir að syngja í trjánum. Náttúran hefur vaknað til lífs eftir að hafa legið í dvala allan veturinn. Illu hefur verið snúið til góðs.
Og þetta mætti einnig heimfæra upp á hina almennu páska þar sem páskaeggin eru í aðalhlutverki. Vissir þú hvernig það byrjaði? Það byrjaði sem skattur. Á miðöldum voru margir bændur leiguliðar. Þeir bjuggu á jörðum, sem aðalsmenn og landeigendur áttu, og þurftu að borga leigu fyrir jörðina. Oftast var hún greidd með þeim afurðum, sem búskapurinn gaf af sér. Á föstunni, sem eru vikurnar sjö fyrir páska, var á miðöldum ætlast til þess að fólk fastaði á kjöt. Raunar var á þessum árstíma lítið um kjöt þannig að þetta kom svolítið af sjálfu sér. En fastan náði líka til eggja. Í staðinn borðaði fólk kornmeti, fisk og grauta. En blessaðar hænurnar hættu ekki að verpa þótt fastan gengi í garð og þess vegna áttu kotbændur og aðrir leiguliðar gjarnan tölvert af eggjum þegar leið að páskum. Og eggin notuðu þeir til að greiða leiguna af jörðinni. Þeir greiddu landskuldina með eggjum. Þetta þýddi að gósseigendurnir áttu meira en nóg af eggjum á þessum tíma. Og héldu menn þá miklar eggjaveislur á páskum. Og eins og menn skreyta á jólum og öðrum stórhátíðum þá var skreytt á páskum. Og þá varð til þessi skemmtilegi siður að mála á egginn. Og aðalsmennirnir gáfu sínu þjónustuliði egg og fátæku fólki munu einnig hafa verið gefin egg. Já, páskaeggin eiga upptök sín í skatti eða rukkun á leigugjaldi. Illu var snúið til góðs. Og sumir mundu jafnvel vilja bæta við og segja að gott hafi orðið enn betra þegar einhverjum snillingum datt það í hug að búa til páskaegg úr súkkulaði.
Þannig sýna páskarnir okkur það, hvort sem við erum að tala um kristna páska, náttúrulega eða veraldlega að hlutir hér í heimi hafa ríka tilhneigingu til að snúast til betri vegar. Og það er mjög bjartsýn og góð trú.
Kæri lesandi, ég óska þér gleðilegra páska.
Magnús Erlingsson,
prestur á Ísafirði.