Getum aukið útflutningsverðmæti um 100 milljarða króna

Jens Harðar Helgason í ræðustól á aðalfundinum.

þrír fulltrúar vestfirskra sjávarútvegsfyrirtækja voru kjörnir í stjórn samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á aðalfundi samtakanna á föstudaginn. Það voru þeir:

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri, Hraðfrystihúsinu-Gunnvör hf., Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs ehf. og Sigurður Viggósson, stjórnarformaður. Odda hf.

Jens Garðar Helgason, formaður samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sagði á aðalfundi samtakanna á föstudaginn að íslensk stjórnvöld hefðu það nú í hendi sér að auka hér útflutningsverðmæti á sjávarafurðum um 100 milljarða á næstu árum eða sem nemur sömu útflutningsverðmætum og þorskstofninn gefur af sér í dag. Var hann að vísa til fiskeldisins sem hefur skipað sér í raðið sjávarútvegsins og benti Jens Garðar á að atvinnugreinin færi ekki fram á neina fyrirgreiðslu frá stjórnvöldum heldur byggði upp þekkingariðnað sem að auki styrkti byggð um landið.

Kallaði hann eftir því að stjórnvöld einfölduðu regluverkið um fiskeldið styrkti frekari rannsóknir tengdar því. Lýsti Jens Garðar Helgason ennfremur vonbrigðum yfir áformum stjórnvalda um skattheimtu af greininni áður en uppbyggingu fiskeldis fyrirtækja væri komið svo á veg að þau væru farin að skila hagnaði.

Orðrétt sagði Jens Garðar í ræðu sinni:

„Ég veit að núverandi stjórnvöld hafa mikinn metnað og vilja til að auka verðmætasköpun og útflutning. Því kalla ég eftir því að stjórnvöld og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vinni saman að því að einfalda umgjörð og regluverk greinarinnar og vinni saman að því að efla og styrkja hafrannsóknir á lífríkinu í kringum Ísland.

Undanfarna mánuði hefur margoft komið fram í ræðu og riti að Íslendingar verði að auka útflutningstekjur sínar um 1.000 milljarða næstu 20 ár – eða um 1 milljarð á viku – til að viðhalda þeim lífskjörum sem við búum við í dag.

Ég hef óbilandi trú á sköpunarkrafti og framtakssemi Íslendinga og tækifærin eru allt í kringum okkur til að sækja fram og stórauka útflutningsverðmæti bæði til sjós og lands.

Íslensk stjórnvöld hafa það nú í hendi sér að auka hér útflutningsverðmæti á sjávarafurðum um 100 milljarða á næstu árum eða sem nemur sömu útflutningsverðmætum og þorskstofninn gefur af sér í dag. Nágrannaþjóðir okkar, Noregur, Færeyjar og Skotland hafa nú þegar nýtt sér sama sóknarfæri og byggt upp öflugan fiskeldisiðnað í sínum löndum. Hér er komin viðbót við íslenskan sjávarútveg sem ekki hefur þegið eða beðið um neina uppbyggingarsamninga eða aðrar fyrirgreiðslur af hendi ríkisvaldsins, heldur er að byggja upp þekkingarsækinn iðnað á landsbyggðinni sem mun tryggja byggðafestu á viðkomandi svæðum enn frekar, auka útflutningstekjur þjóðarinnar.“

DEILA