Orkupakki 1: tekist hefur að innleiða samkeppni í vinnslu og sölu á rafmagni

Mynd úr skýrslunni sem sýnir skipulag raforkumarkaðarins.

Eflaverkfræðistofa hefur skilað skýrslu til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um þróun raforkuverðs og samkeppni frá etningu raforkulaga 2003. Þau lög voru innleiðing á Evróputilskipun um raforkumarkaðinn og íslensk stjórnvöld ákváðu þá að breyta innlendri löggjöf til samræmis við Evrópureglurnar. Kalla má þá löggjöf Orkupakka 1 sem vísar þá til þess að umræðan nú um Orkupakka 3 er um framhaldslöggjöf eða innleiðingu breytinga sem orðið hafa á löggjöf á þessu sviði  frá 2003 og svo 2008 (Orkupakki 2).

Þar sem Ísland er eyja var ekki skylda að innleiða löggjöfina vegna EES enda raforkukerfið á Íslandi án sambands við önnur lönd og þar af leiðandi ekki þörf á samræmdum reglum um raforkuflutninga yfir landamæri, en ákvörðunin 2003 snerist um að innleiða samkeppni á íslenska orkumarkaðnum í vinnslu og sölu á rafmagni með það fyrir augum að samkeppnin lækkaði verð og bætti þjónustu. En áfram þarf sérleyfi til að flytja eða dreifa raforku.

Í skýrslu EFLU kemur fram að tekist hafi að innleiða samkeppni í vinnslu og sölu raforku og að fyrirtækjum sem keppi á þeim markaði fari fjölgandi. Verð á raforku í smásölu hafi farið lækkandi eftir setningu raforkulaga, hafi síðan hækkað að nýju og sé nú svipað að raunvirði og það var fyrst eftir skipulagsbreytingarnar. Ekki verði annað séð en að veruleg samkeppni sé í smásölu raforku.

Dregin eru fram eftirfarandi þrjú áhersluatriði í skýrslu Eflu:

Samkeppni í raforkusölu hefur veitt fyrirtækjum í vinnslu og sölu raforku gott aðhald og merki um það er að arðsemi eigin fjár í starfseminni hefur verið að meðaltali minni en í sérleyfisstarfseminni.

Aðskilnaður á milli þétt- og dreifbýlis hafa skilað því að gegnsæi hefur aukist og skýrt er hve mikið dýrara er að dreifa orku í dreifbýlinu en þéttbýlinu. Allir almennir raforkunotendur hafa síðan tekið þátt í að greiða niður þann umframkostnað með jöfnunargjaldi sem er notað til að fjármagna dreifbýlisframlag.

Hækkanir á gjaldskrám dreifiveitna eru að mestu tilkomnar vegna aukins fjármagnskostnaðar sem skýrist af miklum fjárfestingum í dreifikerfunum sérstaklega í dreifbýlinu og hækkun á leyfilegri arðsemi samkvæmt tekjumörkum.

Fá heimili skipta um söluaðila

Í skýrslunni kemur fram að fá heimili skipta um söluaðila. Flest söluaðilaskipti heimila voru árið 2011 en þá skiptu um 480 heimili um raforkusala. Þeim fækkaði svo en hefur  fjölgað og um 370 skiptu um söluaðila árið 2017. Í ljósi þess að fjöldi íbúða á landinu er nærri 140 þúsund eru það hlutfallslega fá heimili sem skipt hafa um raforkusala. Raforka er einsleit vara og í raun enginn munur á vörunni milli söluaðila og samanburður milli þeirra snýst því um verð og þjónustu. Heimili sem ekki eru rafhituð nota tiltölulega litla raforku eða að meðaltali um 4,5 MWh og því er það ekki há upphæð sem getur sparast við að fara á milli söluaðila.

Svipaða sögu er að segja um fyrirtækin. Ef litið er til fjölda fyrirtækja sem skipt hafa um raforkusala á undanförnum árum voru söluaðilaskiptin flest árið 2012 og eftir það fækkaði þeim.
Orkumagn þeirra fyrirtækja sem skiptu um söluaðila var mest árið 2013, eða samanlagt um 180 GWh. Á undanförnum árum hefur orkumagnið verið minna en fjöldi fyrirtækja um 150-200.

Skýrslan er unnin af Jóni Vilhjálmssyni rafmagnsverkfræðingi og Jónasi Hlyni Hallgrímssyni hagfræðingi hjá EFLU verkfræðistofu að beiðni Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

 

DEILA