Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir að nýundirritaðir kjarasamningar séu tímamótasamningar. Í fyrsta sinn eru öll félög innan Strafsgreinassambands Íslands samstíga og gera saman aðalkjarasamning.
„Þetta eru kjarasamningar fyrir lágtekjufólk og ég segi að þetta séu jöfnunarsamningar í samfélaginu og þeir hjálpa sérstaklega tekjulágum á fyrsta ári samningsins“ segir Finnbogi.
Hann segir að strax eftir næstu áramót fari áhrif samninsgins að koma betur í ljós en því sé ekki að leyna að mikilvægt verði að hið opinbera, ríki og sveitarfélög haldi aftur af sér varðandi gjaldskrárhækkanir. „Allt frá 2011 hafa ríkið og sveitarfélögin étið upp ávinning af kjarasamningum með gjaldskrárhækkunum og skerðingu á bótum. Það liggja fyrir að þessu sinni yfirlýsingar frá þesum aðilum að þeir haldi aftur af sér. Ég treysti því að svo verði“ sagði Finnbogi í samtali við Bæjarins besta.
Finnbogi segir að kjarasamningurinn sé frekar afturhlaðinn í þeim skilningi að hlutur ríkisins komi í litlum mæli strax en fari svo vaxandi eftir því sem líður á samningstímabilið , sem er til 30. nóvember 2022. Verulegra áhrifa af framlagi ríkisins fari ekki að gæta fyrr en í haust.
Í gærkvöldi var haldinn trúnaðarráðsfundur og kosning verður um samningana dagana 11. og 12. apríl.