Eldri borgarar á Ísafirði mótmæla skerðingum í almannatryggingarkerfinu

Aðalfundur Félags eldri borgara á Ísafirði samþykkti  sérstaka ályktun um skerðingar í almannatryggingakerfinu á lífeyri og mótmælir þeim harðlega:

Aðalfundur Félags eldriborgara á Ísafirði og nágrenni haldinn 2.apríl 2019 mótmælir harðlega, þeim fáránlegu skerðingum, sem viðgangast í almannatryggingakerfinu gagnvart lífeyri, hvaðan sem hann kemur. Fundurinn skorar á stjórnvöld að afnema þessar skerðingar nú þegar.

Greinargerð.

Tekjuskerðing almannatrygginga gagnvart eldriborgurum og örykjum er alls ekki sjálfsögð og því síður að hún teljist vera einhvers konar samfélagslögmál, sem verði ekki brotið frekar en sjálft náttúru-lögmálið. Tekjuskerðingunni var komið á með pólitískri ákvörðun og henni verður ekki breytt eða hún afnumin nema með pólitískri ákvörðun.

Á Íslandi er yfir 60% lífeyris greidd úr lífeyrissjóðakerfinu en innan við 40% koma frá Tryggingastofnun. Svo hátt hlutfall greiðslna úr lífeyrissjóðum þekkist hvergi annars staðar.

Það sem stingur í augu við þennan samanburð er sú staðreynd að íslenska kerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris frá ríkinu. Hvergi ennars staðar fellur lífeyrir úr opinbera kerfinu alveg niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk. Tekjutengingin hér er harkaleg og vandséð hvað réttlætir það að Íslendingar skrái sig á söguspjöld með slíku fyrirkomulagi. Skerðingin varðar tugi þúsunda manna. Hægt er að sýna með sannfærandi rökum að ríkið tvískatti í raun lífeyristekjur í núverandi kerfi, annars vegar hjá ríkisskattstjóra og hins vegar hjá Tryggingastofnun, í formi skerðingar á lífeyri.

 

DEILA