Kjarasamningarnir eru undirritaðir og nú er valdið í höndum verkafólks og verslunarmanna að taka afstöðu til þeirra. Enn eiga iðnaðarmenn eftir að semja og sama gildir um félög með beina aðild að ASÍ. Svo eru opinberu samningarnir eftir líka þannig að það er næg vinna framundan.
Nú þegar einn og hálfur sólarhringur er liðinn frá undirritun stendur upp úr hvað verkalýðshreyfingin á margt úrvals fólk sem tilbúið er til verka. Að svona kjarasamningum koma hundruð manna og í Karphúsinu í vikunni kom saman reynsla og þekking þeirra sem hafa gert marga kjarasamninga og svo nýtt fólk með nýja sýn og ferskar hugmyndir. Það var góð blanda. Samningarnir voru prófraun á gríðarlega marga og allir stóðust prófið þegar upp var staðið.
Ég hef ekki verið mikið í því að hrósa núverandi ríkisstjórn en ég verð að segja að þær aðgerðir sem hún kom með að borðinu var lykillinn að því að hægt var að klára kjarasamningana. Það var allt undir í þessum samningum, launakröfur, réttllætismál á vinnumarkaði, stytting vinnuvikunnar, húsnæðismál, skattamál, lífeyrismál, verðtryggingin, jafnréttismál og brotastarfsemi á vinnumarkaði svo nokkur atriði séu nefnd. Árangurinn hvíldi á aðgerðum stjórnvalda og þær birtast í yfirlýsingum í tengslum við samningana. Svo er það sameiginlegt verkefni okkar í verkalýðshreyfingunni að fylgja því eftir að staðið verði við loforðin.
Ég hvet þá sem taka laun samkvæmt nýjum kjarasamningum að kynna sér samningana, fylgjast vel með heimasíðu sinna félaga og afla upplýsinga um kynningarfundi og atkvæðagreiðslur. Ég hef mikla trú á að þessir samningar verði samþykktir og við getum farið að vinna á grundvelli þeirra. Það er líka gott að hafa í huga að barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum kjörum og betra samfélagi er virk hvort sem kjarasamningar eru lausir eða ekki. Sú vinna hættir aldrei.
Njótið helgarinnar,
Drífa Snædal
forseti ASÍ