Tvíhöfði, þeir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson, kemur fram á kvöldskemmtun á skírdag á Aldrei fór ég suður hátíðinni á Ísafirði. Að auki bættust meðal annars þau Auður, Bríet, Between Mountains og Ásta við hliðardagskrá hátíðarinnar. Þetta kom fram í opnun upplýsingamiðstöðvar hátíðarinnar þar sem tilgreint var frá hliðardagskrárviðburði hátíðarinnar.
Upplýsingamiðstöð opnuð í dag
Aldrei fór ég suður opnaði upplýsingamiðstöð í dag á Ísafirði nú þegar tvær vikur eru í að tónlistarhátíðin hefjist. Þar var tilkynnt um heildardagskrá hátíðarinnar en aðaldagskráin fer fram á Ísafirði, auk þess eru hliðardagskrárviðburðir meðal annars á Flateyri og Suðureyri. Upplýst var um aðaldagskrá Aldrei fór ég suður í febrúar en þar koma meðal annars fram Todmobile, Jónas Sig, Berndsen, Svala Björgvins, Mammút, Teitur Magnússon og fleiri.
Það verður að teljast til tíðinda að Tvíhöfði komi fram en það gerist sjaldan eða aldrei. Síðast komu þeir fram fyrir fimmtán árum síðan en þeirra fyrsta eiginlega uppistand átti sér einmitt stað á Ísafirði. Það var á skólaskemmtun í Menntaskólanum á Ísafirði árið 1995 og var það núverandi rokkstjóri Aldrei fór ég suður sem bókaði Tvíhöfða þangað á sínum tíma. „Það var mjög eftirminnileg kvöldstund, ekki eiginlegt uppistand, ekki endilega leiksýning, ekki tónleikar en kannski einmitt allt í senn. Það sem var ógleymanlegt var að ég fékk símtal frá þeim viku fyrr, þar sem þeir settu fram kröfur um svokallaðan ræder. Á þeim lista var rjómi, pakki af smokkum, smámynt, límband og rifsberjahlaup,” segir Kristján Freyr Halldórsson rokkstjóri Aldrei fór ég suður.
Á föstudeginum langa verða tónleikar og opnun í Lýðháskólanum á Flateyri í samvinnu við Aldrei fór ég suður. Þar koma fram Gosi, Árný, Ómi Cé Andi, Between Mountains og Ásta sem er einn nemenda Lýðháskólans en er nú stödd í Reykjavík þar sem hún komst áfram á lokakvöld Músiktilrauna sem fram fer á laugardagskvöld. Á laugardag verða svo tónleikar Aldrei fór ég suður og 66°Norður á Suðureyri þar sem fram munu koma Between Mountains, JóiPé & Króli, Bríet og Auður sem hélt útgáfutónleika sína á dögunum.
Loks kom fram á opnun upplýsingamiðstöðvarinnar að Aldrei Mathöll verði starfrækt á tónleikasvæðinu um páskahelgina og þar verður meðal annars boðið upp á goðsagnakenndan skyndbitarétt ættaðan frá Ísafirði sem kallast Kroppsæla. Kroppsælan var í formlegri könnun fjölmiðla fyrir nokkrum árum síðan valinn besti þynnkubitinn á landinu og ættu því margir að gleðjast.