Íslenski sjávarklasinn hefur gefið út greiningu um stöðu tæknifyrirtækja í sjávarútvegi á Íslandi.
Greiningin á stöðu tæknifyrirtækja, sem tengjast sjávarútvegi, sýnir að staða margra þeirra hefur aldrei verið jafn sterk og nú. Tíu stærstu fyrirtækin juku veltu sína umtalsvert á milli áranna og nam velta þeirra á árinu 2018 um 42 milljörðum króna (aðeins sú velta sem tengist sjávarútvegi og fiskeldi).
Veltuaukningin var tilkomin bæði með sölu búnaðar sem og samruna við önnur fyrirtæki. Velta annarra fyrirtækja, sem eru samkvæmt athugun Sjávarklasans um 65 talsins, var um 40 milljarðar og óx um 7% á árinu 2018.
Samtals var velta þessara tæknifyrirtækja um 82 milljarðar króna og segir í fréttabréfi Sjávarklasans að árið 2018 sé fyrsta árið í sögunni þar sem sala tæknibúnaðar og annars búnaðar frá íslenskum fyrirtækjum, sem mest megnis er á erlenda markaði, er meiri en sem nemur sölu á þorskflökum frá Íslandi.
Loks segir í greiningunni að:
Á þeim sjö árum, sem liðin eru frá því klasinn hóf þessa vinnu hefur orðið gríðarleg breyting á þessari atvinnugrein; mörg fyrirtækjanna hafa stækkað, tækninni hefur vægast sagt fleygt fram og samkeppni aukist. Líklega hefur afdrifaríkasta breytingin í þessari grein verið hvernig upplýsingatækni varð samtvinnuð allri vinnslu og veiðum.
Þar með varð ljóst að öll fyrirtæki sem höfðu áður byggst upp á þekkingu í járnsmíði og tiltölulega einföldum vinnslulínum þurftu að einblína mun meira á hugbúnað.