Engar rannsóknir á áhrifum veiðibanns á árangur við hrygningu

Inga Sæland, alþm.

Í dag er fyrsti dagur svokallaðs hrygningarstopps við veiðar á þorski á þessu ári. Þorskveiðar eru bannaðar víðast á grunnslóð næst ströndinni lungann úr aprílmánuði.

Með fyrirspurn minni vildi ég einmitt beina athygli að þessu hrygningarstoppi sem hefur verið viðvarandi árlega síðan 1992.

Í greinargerð Hafrannsóknastofnun kemur fram að hrygningarstofn þorsksins hafi verið talinn um 652 þúsund tonn í fyrra. Hann hefur þannig ekki verið jafn stór síðan um 1960 og stækkað úr um 154 þúsund tonnum árið 1992 þegar hrygningarstoppið var innleitt.  Það virðist því nokkuð ljóst að hrygningarstoppið hefur ekki skaðað þorskstofninn og kannski orðið meðvirkandi þáttur í því að hrygingarstofninn hefur braggast mjög og þá einkum eftir 2009.

Mér þykir hins vegar sláandi að lesa að engar beinar rannsóknir hafa farið fram hér við land á því hver áhrif algers veiðibanns á þorski geta verið á árangur við hrygningu hjá þessum mikilvægasta fiskistofni þjóðarinnar. Útfærslan á hrygningarstoppinu virðist þannig vera tilraun sem byggir að mestu á getgátum. Furðu sætir að árangur af jafn viðamikilli og langvarandi veiðifriðunaraðgerð skuli ekki hafa verið rannsakaður.

Þetta endurspeglar sjálfsagt að haf- og fiskirannsóknir við Ísland hafa verið í viðvarandi fjársvelti um margra ára skeið, og sæmir ekki þjóð sem lagt hefur áherslu að hafa vísindin og vísindalega ráðgjöf að leiðarljósi við nýtingu fiskistofna sinna.

Þó það hljómi kannski mótsagnakennt þá veldur það ákveðnum áhyggjum að  við skulum nú búa við jafn sterkan þorskstofn þar sem stærstur hluti hans er kynþroska fiskar af eldri árgöngum. Þetta gerist nefnilega á sama tíma og mikill brestur kemur í loðnustofninn. Því miður eru horfur daprar á því að loðnan rétti úr kútnum í fyrirsjáanlegri framtíð. Mun þorskurinn finna nóg æti? Getum við átt von á því að sjálfsát þorskins aukist eins og sjá má í þessu myndbandi frá 2015?

https://www.youtube.com/watch?v=2MlUnOSDrDY

[http://img.youtube.com/vi/2MlUnOSDrDY/0.jpg]<https://www.youtube.com/watch?v=2MlUnOSDrDY>

Þorskur að éta undan sér. – YouTube<https://www.youtube.com/watch?v=2MlUnOSDrDY>
www.youtube.com<http://www.youtube.com>
Þetta myndband er frá 2015 og er afritað frá youtube notanda kallioli.

Þetta hlýtur að vekja spurningar um hvort ekki sé rétt að vakta betur hugsanlegt sjálfsát þorsksins og hef ég sent sjávarútvegsráðherra aðra fyrirspurn sem lýtur að því og bíð svara.

Í ofangreindri fyrirspurn minni um hrygningarstoppið beini ég sjónum að því hvaða rök liggi að baki því að bannað sé að veiða með kyrrstæðum veiðarfærum (línu og handfærum) á tilteknum svæðum í hrygningarstoppi. Enn sem áður virðast rök Hafrannsóknarstofnunar fyrir því byggja á getgátum án þess að nokkrar rannsóknir liggi að baki.  Spyrja má hvort ekki sé nú rétt að rýmka reglur um veiðifriðun þorsks í svokölluðu hrygningarstoppi í ljósi þess að stofninn stendur nú sterkt og hætta er á að mikill fjöldi stórþorska leggist nú í sjálfsát með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir nýliðun í hrygningarstofninn á næstu árum?

Inga Sæland, alþm.

DEILA