Íbúðalánasjóði verður skipt upp

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum síðastliðinn þriðjudag tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um að Íbúðalánasjóði verði skipt upp.

Fjármálastarfsemi skilin frá 

Í því felst að sá hluti sem snýr að fjármálaumsýslu vegna eldra lánasafns sjóðsins verði skilinn frá meginstarfsemi hans. Legið hefur fyrir frá árinu 2012, þegar almennum lánveitingum sjóðsins til almennings vegna húsnæðiskaupa var að mestu hætt, að bregðast þyrfti við áhrifum þess á Íbúðalánasjóð. Þeim var hætt í kjölfar úrskurðar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að lánin stönguðust á við reglur EES-samningsins.

Starfshópur, sem skipaður var í september síðastliðnum, hefur verið með breytta stöðu sjóðsins til umfjöllunar og var niðurstaða hópsins að leggja til við ráðherra að fara þessa leið.

Framkvæmd, rannsóknir  og stefnumótun

Hlutverk Íbúðalánasjóðs hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum með breytingum á lögum um húsnæðismál og er í dag sú stofnun sem fer með framkvæmd húsnæðismála hér á landi. Hún fer með stefnumótun og rannsóknir á húsnæðismarkaði, hefur umsjón með opinberum húsnæðisstuðningi og veitingu félagslegra húsnæðislána. Eftir uppskiptinguna verður til öflug húsnæðisstofnun sem gegnir lykilhlutverki á húsnæðismarkaði. Hún fer með framkvæmd og samhæfingu húsnæðismála um land allt auk þess að vera öflugur samstarfsaðili fyrir sveitarfélögin í landinu í tengslum við áætlunargerð þeirra í húsnæðismálum.

Á sama fundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudag kynnti Ásmundur Einar að til greina komi að sameina Mannvirkjastofnun við húsnæðisstofnunarhluta Íbúðalánasjóðs. Hyggst ráðherrann skipa starfshóp á næstu dögum sem ætlað er að skoða ítarlega kosti þess og galla.

DEILA