Það er von þú spyrjir, það er nóg að gera í fiskvinnslu og laxeldi, kennarar standa í ströngu við að fræða börnin og hjúkrunarfólkið sér um að við bröggumst vel og hugsar um (h)eldri borgara samfélagsins. Þar fyrir utan er allt á fullu í menningunni.
Tónlistarskóli Vesturbyggðar varð 50. ára á síðasta ári en í tilefni þess var safnað fyrir flygli og komu fyrirtæki og félagasamtök vel að því og kom gripurinn í bæinn í febrúar. Starf skólans hefur verið öflugt undir stjórn Einars Braga sem hefur komið blásturshljóðfærum aftur á kortið í Vesturbyggð. Um síðustu helgi tók svo Tónlistarskólinn þátt í Nótunni fyrir Vesturland og Vestfirði í fyrst sinn þar sem tveir nemendur léku á saxafón og píanó og hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi flutning í flokki samleiks í grunnnámi. Við erum stollt af skólanum og tónlistarfólkinu okkar.
Þar sem samfélagið er fámennt og mörg fyrirtækin smá er sá háttur á sunnanverðum Vestfjörðum að halda Árshátíð fyrirtækjanna. Dregin eru þrjú fyrirtæki eitt úr hverjum bæjarkjarna sem fá það hlutverk að halda árshátíðina að ári. Þessi viðburður hefur alltaf verið mjög vel heppnaður og verður haldinn 6. apríl. Vegamót á Bíldudal munu sjá um veisluföngin, Keli í Svörtum fötum mun kitla hláturtaugarnar og Sigga Beinteins og Grétar munu halda uppi fjörinu á dansgólfinu. Fyrir nýbúa er skemmtilegast að sjá hvað allar kynslóðir skemmta sér vel saman og dansinn dunar fram á nótt.
Við búum vel að því að hér starfar hið stórgóða Skjaldborgarbíó sem Lions menn sjá um að reka og við erum alltaf með nýjustu myndirnar, reyndar svo fljótt að enginn veit hversu frægar þær verða. Því hefur verið nauðsynlegt að endursýna allnokkrar í því stórmyndregni sem hefur verið í vetur, sem ávalt er auðsótt mál enda miklir „þjónustulundar“ í Lions sem leggja mikla vinnu á sig til að efla og bæta samfélagið.
Fimmtudaginn 28. mars bjóða foreldrafélög svæðisins öllum í leíkhús á Rauðhettu í fluttningi leikhópsins Lottu sem hefur heillað yngstu kynslóðina í gegnum árin og þá sem eru ungir í anda enda alltaf skemmtilegur undirtónn í sýningum þeirra með dassi af tvíræðni svo allir skemmta sér konunglega.
Á Patreksfirði er írskættaði Patreksdagurinn 17. mars haldinn hátíðlegur og í þetta sinn með listsköpun í Húsinu, þar sem tónlistarskólinn og píanóleikarinn Philip Zach spiluðu fyrir gesti sem gæddu sér á gómsætum vöfflum og áttu saman huggulegan sunnudagseftirmiðdag. Viku seinna hélt svo Philip tónleika í félagsheimilinu þar sem hann spilaði frumsamið efni sem var afrakstur 3. vikna dvalar í listasmiðju Hússins.
Ég var stödd í Edinborg vikuna fyrir Patreksdaginn og leigubílstjórinn var mjög fús að segja mér alla helstu kosti borgarinnar og hvort ég yrði ekki örugglega í bænum á sunnudaginn þegar Patreksdagurinn yrði haldinn hátíðlegur. Skemmtilegt að segja frá því að ég varð að segja honum að ég yrði að drífa mig heim á Patreksfjörð því þar værum við með okkar eigin hátíð í tilefni dagsins sem ég þyrfti nauðsynlega að ná. Heldur betur lítill þessi heimur.
Á síðustu helgi hélt Húsið sem er einskonar lista kaffihús bæjarins upp á 1. árs afmælið með pompi og prakt.
Menningin svífur yfir vötnum og bókaklúbburinn Húslestur hóf göngu sína með lestri á þeirri sígildu sögu „Svartfugl“ eftir Gunnar Gunnarsson. Vel skrifuð og góð skáldsaga byggð á sannsögulegum atburðum á Rauðasandi í kringum aldamótin 1800. Lífið hefur ekki verið
dans á rósum í þá daga en bókin stendur okkur nærri og fólk hefur lítið breyst í aldanna rás þótt lífsramminn hafi tekið stakkaskiptum. Næsta bók í Húslestri verður svo bókin „Utan þjónustusvæðis“ eftir Ásdísi Thoroddsen en sú skáldsaga gerist á Barðaströnd svo áfram verður haldið í innansveitarkróníkunni.
Menningararfurinn á svæðinu teygir anga sína víða en skáldið Jón úr Vör var auðvitað Patreksfirðingur. Það var því vel við hæfi að nýtt veftímarit sem hóf göngu sína í mars heitir „Úr vör“ en það leggur áherslu á menningu, listir, nýsköpun og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni. Spennandi nýjung í veftímaritaflóru Vestfirðinga.
Hópið á Tálknafirði og Vegamót á Bíldudal hafa svo staðið fyrir skemmtikvöldum af ýmsu tagi og er það orðið landsþekkt hvernig Bíldælingar bresta í söng við minnsta tilefni og á Vegamótum er gítarinn staðalbúnaður ef stemmingin er góð þegar vertinn, Gísli Ægir, fálmar eftir gítarnum og tekur nokkra slagara og allir syngja með. Þemalagið er auðvitað: Er það hafið eða fjöllin sem að laða mig hér að, eða er það kannski fólkið á þessum stað?
Það er engin leið að greina nákvæmlega hvað laðar fólk að þessum sjarmerandi þorpum á sunnanverðum Vestfjörðum en hér er allavegna blásið til sóknar og við höfum nóg að „dudda“ okkur við.
Guðrún Anna Finnbogadóttir