Töluverðar líkur eru á því að alvarlegt afbrigði fuglaflensu, sem greinst hefur í fuglum víða í Evrópu, berist hingað til lands með farfuglum. Þetta er mat starfshóps sérfræðinga hjá Matvælastofnun og Háskóla Íslands, tilraunastöð HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis. Ekki er vitað til að fólk hafi veikst af völdum þessa afbrigðis.
Samkvæmt Matvælastofnun hefur fuglaflensan, H5N8, breiðst hratt út í Evrópu frá því í október á síðasta ári, bæði í villtum fuglum og alifuglum, meðal annars á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig á að vetri til. Sýkingin er þannig að fuglar sem hafa smitast stuttu áður en þeir leggja af stað yfir hafið geta náð til landsins áður en þeir veikjast. Samkvæmt MAST er faraldurinn frábrugðinn þeim sem geisaði í Evrópu á árunum 2006-2008 þar sem hann nær í meira mæli til villtra fugla sem virðast jafnframt vera helsta smitleið alifugla.
Matvælastofnun segir fuglaeigendur þurfa að að vera undir það búnir að geta hýst fuglana sína eða haft þá í girðingu undir þaki til að draga úr smithættu. Þá er almenningur beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar verði hann var við óeðlilegan fugladauða.
smari@bb.is