Vísindaportið verður á mánudaginn : Vaxandi hvalastofnar

Vísindaportið frestast til mánudags að þessu sinni vegna veðurs.

Vaxandi hvalastofnar: Hvernig fjölgun hvala getur gagnast lífríki hafsins

ATHUGIÐ BREYTTUR TÍMI: VÍSINDAPORT Á MÁNUDEGI!

Í Vísindaporti vikunnar mun Dr. Joe Roman ræða líffræðilegt hlutverk hvala í hafinu og lýsa því hvernig þeir ýta undir fjölbreytileika og þjóna í raun hlutverki verkfræðinga sjávarins. Endurkoma stórhvela til fyrra ástands, eftir aldalanga ofveiði, er til marks um einstakan árangur í umhverfisvernd á síðustu öld. Samt sem áður getur fjölgun hvala skapað árekstra þar sem stundum er litið á þá sem samkeppnisaðila við fiskveiðar og aðra hagsmuni mannsins.

Joe Roman er verndarlíffræðingur við Háskólann í Vermont, Bandaríkjunum. Hann dvelur nú á Íslandi með rannsóknarstyrk á sviði Norðurskautsfræða frá Fulbright-stofnuninni. Starfar hann við Háskóla Íslands þar sem hann fæst við að rannsaka hvernig næringarefni í sjó berast frá norðlægum breiddargráðum með hvölum, ferli sem hefur verið nefnt “stóra hvalafæribandið”. Roman hefur annars einkum áhuga á verndun tegunda í útrýmingarhættu, vistfræði hvala og vistkerfi eyja.

Vísindaportið fer fram kl. 12:10-13 í kaffistofu Háskólaseturs og eru allir velkomnir. Að þessu sinni verður erindið á ensku.

DEILA