Atvinnuveganefnd fór á dögunum til Bergen í Noregi til að læra af fimmtíu ára reynslu Norðmanna af fiskeldi. Ferðin var mjög upplýsandi og hittum við þar fyrir fjölda aðila sem tengjast fiskeldi í eftirliti, rannsóknum og opinberar stofnanir. Meðal annars Norsku Hafró og Fiskistofu, Norce – sjálfstæða rannsóknastofnun, umhverfissamtök, og veiðiréttarhafa. Þá heimsóttum við Blom fiskeldisstöð sem er fimmtíu ára gamalt fjölskyldufyrirtæki. Í Bergen var sjávarútvegssýning sem Íslandsstofa og íslensk fyrirtæki tóku þátt í og þar mátti hlýða á fjölda fróðlegra fyrirlesara um tækifæri og þróun í sjávarútvegi og fiskeldi. Sérstaklega var fjallað um áskorunina sem matvælaiðnaður stendur frammi fyrir en til þess að fæða jörðina þarf heimsbyggðin að tvöfalda matvælaframleiðslu á næstu þrjátíu árum. Nú þegar kemur yfir helmingur af fiskafurðum úr fiskeldi og talið að það hlutfall verði að aukast til að létta álaginu af ofveiddum fiskistofnum víða um heim.
Það má margt læra af Norðmönnum sem hafa gert ýmis mistök og lært af þeim. Nú eru Norðmenn fremstir meðal þjóða í þróun eldisbúnaðar og í mótvægisaðgerðum gegn hættu á erfðablöndun og tilraunum með eldi á landi, í lokuðum kvíum og með ófrjóan eldislax.
Það sem mest hefur verið til umræðu hér heima er hættan sem er á erfðablöndun við villtan lax og hvernig koma megi í veg fyrir slysasleppingar og til hvaða mótvægisaðgerða best sé að grípa svo koma megi í veg fyrir áhættu á erfðablöndun. Norðmenn hafa þróað áhættumat frá árinu 2011 og byggt það á breiðum grunni með aðkomu margra aðila sem að greininni koma og sátt er um og í matinu er tekið tilliti til mótvægisaðgerða.
Lágmörkum áhættuna
Í því frumvarpi um fiskeldi sem liggur nú fyrir Alþingi er settur á fót samráðsvettvangur hagaðila sem rýna eiga líkanið fyrir áhættumatið og koma með tillögur til mótvægisaðgerða sem hægt er að taka tillit til við vinnu Hafró að bindandi tillögu um áhættumat til ráðherra.
Forsendur áhættumatsins eins og það liggur fyrir hefur verið gagnrýnt af ýmsum og þ.m.t. virtum vísindamönnum og því nauðsynlegt að þróa það áfram í breiðri sátt þeirra aðila sem að málinu koma á samráðsvettvangi og að það sé lifandi plagg.
Ég tel það mikilvægt að vernda líffræðilegan fjölbreytileika og standa vörð um villtu laxastofnanna. Við gerum það með því auka rannsóknir á þeim og eftirlit líkt og Norðmenn hafa gert. Eitt að þeim atriðum sem hefur mikið að segja um áhættuna af laxeldi er hæfni eldislaxa til að fjölga sér í náttúrunni. Margir vísindamenn telja hæfnina litla og að náttúruvalið hendi út einstaklingum sem ekki eru val aðlagaðir að umhverfinu. Þá er hröð þróun í mótvægisaðgerðum, eins og stærð seiða, myndavélar og vöktunarbúnaður, eldislax fjarlægður úr ám og tilraunir með ófrjóan lax og lokuð kerfi. Hinn þátturinn sem hefur mikil áhrif er einfaldlega hversu margir laxar sleppa úr kvíunum. Þar þarf að tryggja að allir hvatar séu til þess að vera með eins öruggan búnað og völ er á til þess að lágmarka áhættu.
Það er því mikilvægt að við vöndum okkur vel við að styrkja lagaumhverfi fiskeldis og tryggja umhverfisþáttinn vel ásamt öllu eftirliti með greininni og nýsköpun. Ég tel að það frumvarp um lögfestingu á regluverki í kringum fiskeldið sem nú er til meðferðar í atvinnuveganefnd sé stórt skref í þá átt að skapa sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein. En hún á eftir að skapa hagsæld og atvinnu í landinu ef rétt er á málum haldið.
Við Vinstri græn viljum að fiskeldi byggist upp í sátt við umhverfið og aðrar atvinnugreinar. Að greinin vaxi með sjálfbærum hætti sem byggist á efnahagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum þáttum.
Formaður Atvinnuveganefndar Alþingis
Lilja Rafney Magnúsdóttir.