Súðavík: byggðakvótareglum breytt frá síðasta ári

Frá Súðavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Súðavíkur hefur gengið frá reglum um úthlutun byggðakvóta frá Fiskistofu sem kemur í hlut sveitarfélagsins. Á síðasta fiskveiðiári 2017/18 var úthlutað 204 tonn mælt í þorskígildum. Ekki eru aðgengilegar upplýsingar um magnið sem verður til úthlutunar á yfirstandandi fiskveiðiári 2018/19.

Úthlutunarreglur  breytast aðeins frá fyrra ári. Þá var kvótanum skipt milli frístundaveiðibáta og annarra báta sem höfðu landað a.m.k. 50% af afla sínum í Súðavík  árið áður í hlutföllunum 30:70 og skipt jafnt milli báta í hvorum flokki.

Nú verður sú breyting að frístundabátar fá minna af byggðakvótanum, 20% í stað 30%. Bátar með aflamarksleyfi fá 20% og aðrir bátar fá 60%. Í öllum flokkum verður kvótanum skipt jafnt milli báta.

Borist höfðu tvö erindi þar sem farið var fram á að reglunum yrði frekar breytt. Í öðru erindinu  var óskað eftir því að bátar sem yðru skráðir í sveitarfélagið 8. mars 2019 eða fyrr fengju byggðakvóta og í hinu erindinu var farið fram á að fallið yrði frá kröfu um að landa afla í Súðavík. Báðum erindunum var hafnað og standa því reglurnar óbreyttar hvað þessi atriði varðar.

 

DEILA