Landsréttur hafnar kröfum um endurgreiðslu á sérstöku veiðigjaldi

Valbjörn ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Landsréttur kvað upp dóm í síðustu viku í máli þriggja úthafsrækjuveiðiútgerða sem kröfðust þess að sérstakt veiðigjald sem lagt var á fiskveiðiárið 2012/13 yrði endurgreitt. Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. júní 2018. Var ríkið sýknað af kröfunum og stefnendur dæmdir til þess að greiða ríkinu málskostnað fyrir Landsrétti.

Það voru útgerðirnar Birnir ehf í Bolungavík, Sólberg ehf á Ísafirði og Flóki ehf á Húsavík sem höfðuðu málið vegna veiða skipanna Valbjarnar ÍS, Arnarborgar ÍS og Ísbjarnar ÍS.

Áfrýjendur, það er útgerðarfyrirtækin þrjú,  töldu að álagning veiðigjaldsins fyrir umrætt fiskveiðiár hefði verið ólögmæt þar sem hún hefði ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar um skattheimtu, sbr. 72. og 77. gr. og jafnræðisreglu 65. gr. hennar.

Í dómi Landsréttar kemur fram að hið sérstaka veiðigjald væri skattur í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og væri markmiðum álagningar þess lýst í 2. gr. laga nr. 74/2012. Vísað er til dóms Hæstaréttar í máli nr. 213/2016, þar sem sérstaka veiðigjaldið er talið reist á málefnalegum grunni og því væri löggjafanum hefði verið heimilt að leggja til
grundvallar þær forsendur sem lágu að baki ákvörðun hins sérstaka veiðigjalds.

Áfrýjendur töldu meðal annars að veiðarnir hefðu ekki skilað neinum arði og lögðu fram gögn því til stuðnings og stæðist því álagningin ekki ákvæði stjórnarskrárinnar.

Landsréttur hafnaði þessum rökum og segir að fjárhæð sérstaks veiðigjalds hafi verið  byggð á áætlunum um afkomu botnfisksveiða og botnfisksvinnslu í heild. Það breytir ekki þeirri niðurstöðu þótt arðsemi veiða mismunandi botnfiskstegunda hafi verið misjöfn og afkoma úthafsrækjuveiða hafi almennt verið slök á umræddu fiskveiðiári.

Gæti afkoma eða arðsemi af rækjuveiðum áfrýjenda á umræddu fiskveiðiári engu breytt um lögmæti álagningar veiðigjaldsins. Þá var með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms Héraðsdóms Reykjavíkur hvorki talið að útreikningur hins sérstaka veiðigjalds hefði falið í sér ólögmætt framsal skattlagningarvalds né að álagning veiðigjaldsins hefði brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Var því íslenska ríkið sýknað af öllum kröfum áfrýjenda.

DEILA