Eðlilegt að skoða samstarf – sameining ekki í kortunum

Pétur G. Markan.

„Mér finnst afstaða sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps vera bæði ábyrg og skynsöm og lýsa sveitarfélagi sem líður vel í eigin skinni og er öruggt með sjálft sig,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkuhrepps um samhljóða ákvörðun sveitarstjórnar um sameiginlega umsókn hreppsins og Ísafjarðarbæjar um fjárframlag úr Jöfnunarsjóði sem verður nýtt til að skoða frekara samstarf og sameiningu sveitarfélaganna. Í bókun sveitarstjórnar Súðavíkhrepps er tekið fram að kjörnir fulltrúar hafi ekki sérstakan áhuga á að sameinast Ísafjarðarbæ. „Það er miklu heldur vilji að vinna hlutina meira saman. Hvort heldur sem er, þá verða allar þessar ákvarðanir, stórar eða smáar, í höndum íbúa Súðavíkurhrepps,“ segir sveitarstjórinn.

Hann telur ekkert nema eðlilegt að sveitarfélög skoði reglulega umhverfi sitt og kanni hvort ekki sé hægt að gera  betur fyrir íbúa, hvort sem það er þjónusta, rekstur og almenn velferð. „Svo ekki sé  talað um þegar maður á jafn frábæra nágranna. Til þess er þessi styrkur ætlaður, að kanna á faglegan hátt hvort ekki sé hægt að gera betur, hvort sem það er meira samstarf eða möguleg sameining.“

Hann leggur áherslu á að hreinskiptin umræða sé öllum til góða og að íbúar séu best til þess fallnir að að taka sjálfir ákvörðun um sína framtíð. „En til þess að taka ákvörðun þarftu að vera upplýstur á besta mögulegan hátt og styrkurinn notaður til að afla þeirra upplýsinga. Svo leggjum við afurðina fyrir íbúa, höldum íbúafund og ræðum bjarta framtíð Súðavíkurhrepps og Vestfjarða,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

smari@bb.is

DEILA