Ljósmyndasýningin Meiri menn hefur verið opnuð í Neistanum á Ísafirði ásamt fleiri stöðum. Sýningin byggir á persónulegum sögum átta karlmanna víðs vegar að af landinu sem greinst hafa með ólíkar tegundir krabbameina. Sýningin fer fram í vefgáttinni Karlaklefanum og á sex sýningarstöðum; í Kringlunni, Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar, á Glerártorgi Akureyri, í JMJ herradeild á Akureyri, í Ráðhúsi Reykjanesbæjar ásamt Neistanum á Ísafirði. Það eru ljósmyndararnir Ásta Kristjánsdóttir og Auðunn Níelsson sem eiga heiðurinn af myndunum. Einnig má sjá sýnishorn af myndunum í þjónustumiðstöð Krabbameinsfélagsins Sigurvonar í Pollgötu á Ísafirði.
Í Karlaklefanum er svo að finna fræðsluefni af ýmsum toga sem sérstaklega er ætlað karlmönnum. Karlmenn leita sér upplýsinga í minna mæli en konur varðandi margt sem snertir heilsufar, þeir bregðast síður við einkennum og leita seinna til læknis. Markmið Krabbameinsfélagsins með Karlaklefanum er að auka áhuga karla á fróðleik og upplýsingum um heilbrigðan lífsstíl. Einnig um krabbamein og sjúkdómsferli, réttindamál, stuðning og viðbrögð aðstandenda og vinnufélaga svo dæmi séu tekin. Fyrsti áfangi vefsins opnaði þann 1. mars 2019 í tilefni af upphafi Mottumars.
Þá eru mottumarssokkarnir komnir í sölu um land allt. Sokkarnir eru hannaðir af Önnu Pálínu Baldursdóttur, nemanda í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands, sem bar sigur úr bítum í hönnnunarsamkeppni Mottumars síðastliðið haust.
Eins og flestir vita er Mottumars fjáröflunar- og árveknisátak Krabbameinsfélagsins í þágu karla og krabbameina. „Við erum stolt og ánægð að geta tekið þátt í þessu verkefni auk þess sem við munum standa fyrir fræðslu um krabbamein í eistum fyrir unga karlmenn í menntaskólanum á Ísafirði í mánuðinum,“ segir í tilkynningu frá Sigurvon.
https://www.karlaklefinn.is/