Innflytjandi frá Austurlöndum var farinn að aðlagast samfélaginu á Vestfjörðum. Hann var kominn með vinnu og naut þess að fá útborgað um hver mánaðarmót. Það var samt eitt, sem hann botnaði ekki alveg í og það voru allar þessar tölur á launaseðlinum. Hvernig stóð á því að útborguð laun voru alltaf svona miklu lægri en heildarlaunin? Vinnufélagarnir útskýrðu fyrir honum að þetta væri frádráttur, hann borgaði í lífeyrissjóð til að fá eftirlaun og svo væri það skattarnir, sem notaðir væru til að hafa skóla, heilsugæslu og vegi. Innflytjandinn kinkaði kolli. Þetta virtist vera skynsamlegt. Svo spurði hann vinnufélagana: “Ef þið borga skatta af hverju þið ekki fá malbik eins og aðrir?” Því gat enginn svarað.
Fólk borgar skatt til ríkisins og útsvar til sveitarfélagsins. Og síðan er fjöldinn allur af óbeinum sköttum og gjöldum. Fé þetta á að vera til að tryggja fólki samfélagslega þjónustu eins og nám, heilsugæslu og samgöngur. En hvað um samfélög, sem hafa ekkert af þessu? Er eitthvað réttlæti í að þau greiði skatta ef þau hafa ekki sama aðgang og aðrir landsmenn að þessum sameiginlegu gæðum? Augljóslega ekki, því að í lýðræðisþjóðfélagi hlýtur það að vera grundvallaratriði að allir þegnar landsins sitji við sama borð þegar kemur að réttindum og samfélagsþjónustu. Allt annað er ranglæti.
Á Íslandi er til samfélag, sem býr ekki við þessi sjálfsögðu mannréttindi. Þetta er samfélagið Árneshreppur á Ströndum. Það er eina samfélagið á landinu, sem ekki er í vegasambandi við önnur samfélög yfir veturinn. Á meðan allir aðrir landsmenn geta ekið á sínum einkabíl til að hitta tannlækninn og versla í stórmarkaði þá þurfa íbúar í Árneshreppi að fljúga yfir veturinn. Þeir hafa orðið að láta í minnipokann og sætta sig við að sökum fámennis þá eigi þeir ekki sama rétt og aðrir.
Í Bítinu á Bylgjunni var verið að ræða um fréttir vikunnar. Og talið barst að veggjöldum, sem nú á að leggja á landsmenn. Stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson var einn viðmælanda og hann svaraði að bragði að honum fyndist það ranglátt að Vestfirðingar greiddu veggjöld því þeir væru enn að aka á malarvegum, þeir væru ekki enn komnir inn í 21. öldina. Þetta er alveg rétt hjá Kristjáni. Hér á Vestfjörðum eru byggðir enn tengdar saman með malarvegum. Og á tveimur stöðum er ekki mokað yfir háveturinn. Leiðin milli Ísafjarðar og Vesturbyggðar liggur um Dynjandisheiði og sá vegur er ekki opinn yfir vetrartímann. Vegagerðin mokar ekki snjó af þeim vegi yfir vetrarmánuðina, – ekki fremur en leiðinni milli Árness og Hólmavíkur er haldið opinni. Þegar kemur að vegamálum þá eru Vestfirðingar minnipokamenn.
Greinarhöfundur fagnar sextíu ára afmæli á þessu ári. Hann man það þegar hann fór sem drengur með foreldrum sínum í ferðalög um Vestfirði á Volkswagen bjöllu með tjaldið á toppinum. Hálfri öld síðar ekur hann um þessa sömu vegi. Hjallaháls, Dynjandisheiði, Þorskafjarðarheiði og leiðin í Árneshrepp, þar sem afi fæddist, allir þessir vegir eru nákvæmlega eins og þeir voru í gamla daga. Þarna eru sömu beygjurnar, sömu holurnar og pollarnir. Tíminn hefur staðið í stað á þessum vegum. Það er í raun nostalgísk upplifun að aka þessa vegi því ósjálfrátt rifjast upp löngu liðinn tími þegar lítill strákur klessti nefið sitt að bílrúðunni og horfði út. Allt er eins og forðum daga.
Stundum hvarflar það að greinarhöfundi að í þessu kunni að liggja sóknarfæri fyrir Vestfirðinga. Væri hægt að auglýsa Vestfirði upp fyrir ferðamenn með því að segja: Aktu um Vestfirði og upplifðu á eigin skinni alvöru malarvegi frá miðri 20. öld. Upplifunin er einstök!
Vestfirðingar eru minnipokamenn. Þeir borga skatta og sætta sig við það að stór hluti fjárins endi fyrir sunnan. Þeir sætta sig við að byggðir á Vestfjörðum séu ekki í vegasambandi yfir vetrartímann. Þeir sætta sig við að þurfa að sækja alla þjónustu sérfræðilækna til höfuðborgarinnar.
Fyrir suðvestan Vestfirði er eitt stórt land. Þar gerðist það fyrir einum þremur öldum síðan að íbúarnir neituðu að borga skatta vegna þess að þeir áttu ekki fulltrúa á enska þinginu. Þeir neituðu að láta í minni pokann og gerðu uppreisn. En líklega eru Vestfirðingar of kristnir til að láta sér detta slíkt í hug. Hér lifa menn í anda Fjallræðunnar: Ef einhver slær þig á vinstri kinnina þá bjóð fram hina kinnina!
Magnús Erlingsson.