Það var fullt út úr dyrum á árshátíð Grunnskólans í Bolungavík, sem haldin var í gær. Hvert sæti var setið og reyndar meira til um allt hús. Forsvarsmenn skólans sögðu að aldrei hefðu verið jafnmargir gestir á árshátíðinni. Aðalþema hátíðarinnar var að heiðra minningu Stefáns Karls leikara. Sett var upp leikþáttur með Glanna glæp og Sollu stirðu og öðrum þekktum persónum. Að sjálfsögðu voru það nemendur sem léku og sungu.