Í Bolungavík virðist vera mikill áhugi verktaka á því að kaupa notað húsnæði og breyta því í íbúðarhúsnæði. Þegar hefur verið sagt frá því í Bæjarins besta að verslunar- og skrifstofuhúsnæði Einars Guðfinnsonar hf og skrifstofuhúsnæði Jóns Fr Einarssonar hefur verið keypt og er verið að breyta því í íbúðir sem verða leigðar út.
Á bæjarráðsfundi í Bolungavík í fyrradag voru lögð fyrir ráðið tvö erindi verktaka sem vilja kaupa húsnæði í eigu bæjarins í því skyni að gera það að íbúðum.
Annars vegar var kynnt erindi frá GÓK ehf um viðræður um kaup á Vitastíg 1 og 3 sem er í eigu bæjarsjóðs og hins vegar var erindi frá Lambhaga ehf um kaup á Höfðastíg 7 ( Lambhagi). Í Vitastíg hefur verið gisti- og verslunarhúsnæði og Lambhagi var fyrst byggt fyrir aldraða og hefur einnig verið notað fyrir yngstu kynslóðina. Í Lambhaganum eru hugmyndir um að gera 6 íbúðir.
Bæjarráðið fagnaði áhuga verktakanna og ákvað að auglýsa formlega eftir áhugasömum aðilum til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði í fasteignum sem eru í eigu bæjarsjóðs.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að það væri skortur á íbúðarhúsnæði í Bolungavík. Líklega væri markaðsverðið orðið hærra en áður og verktakar sæju sér hag í að kaupa ónotað húsnæði og breyta því í íbúðarhúsnæði sem yrði ýmist leigt eða selt. Hann bent einnig á að byggaðrlagið standi sterkt atvinnulega séð og íbúafjöldinn væri stöðugur.