Þátturinn hefst á vísnabréfi frá Indriða á Skjaldfönn:
Vinur minn úr hægrasta hægrinu, því nefndur hér HH, kvartaði við mig yfir ósanngirni og ljótum munnsöfuði og jafnvel níðvísum um fjármálaráðherra sem hefði þó ekkert til saka unnið, annað en gera sitt besta til að fjölga velstæðu fólki. Sem væri jú hið besta mál því þá hrataði meira af brauðmylsnu , jafnvel heilu molarnir, út af borðinu til þeirra sem undir því væru. Þð væri líka fjarri lagi að tapast hefðu 130 milljarðar króna vegna Engeyinga og það hefði þá mest verið fjármunir lífeyrissjóðanna sem ættu hvort eð er allt of mikla peninga.
Síðan sagði HH að næst á eftir Davíð væri Bjarni sannorðasti og heiðarlegasti maður sem hann þekkti og fór fram á sanngjarnari meðferð á honum. Og hvað gerir maður ekki fyrir vini sína?
Hér á okkar Ísastorð
oft er skreipt á hjarni.
Segi tæpast ósatt orð
eðalmennið Bjarni.
Drengur bæði dag og nótt
dyggðum mörgum þjónar.
Þó hart að onum hafi sótt
hælbítar og dónar.
Í Morgunblaðinu fyrir nokkru og í lengri gerð í netútgáfu þess, er grein eftir Viðar Hreinsson, heimspeking og rithöfund, sem nefnist glapræðið í Ófeigsfirði og ætti að vera skyldulesning sérstaklega fyrir okkur Vestfirðinga. Hann rekur þar sögu Alterna, sem áður var Magma Energy, hið alræmda skúffufyrirtæki í Svíþjóð og virkjunaráform þess í Ófeigsfirði. Þar skal valtrað yfir örsamfélagið, raskað náttúrufari þar ótæpilega í gróðaskyni og koma þannig í veg fyrir að samfélagið þróist á eigin forsendum. Virkjun styrki í litlu sem engu búsetu í Árneshreppi. Orkan þaðan færi ekki til okkar Vestfirðinga og til þess væru smærri virkjanir hér við innanvert Djúp mikið heppilegri kostur.
Auðvaldsheimskan hjartaköld
hún er mannkyns byrði
en hefur til þess veg og völd
að virkja í Ófeigsfirði.
Undanfarið höfum við séð á netinu auglýsingar kostaðar af fyrrnefndu Alterna þar sem sveitarstjórnarpótentátar hér við Djúp kalla eftir Hvalárvirkjun. Þetta er bara beint framhald af því þegar Vesturverk bauð Árneshreppsbúum vegabætur, þrífasarafmagn, ljósleiðara og málningu á skólahúsið ef þeir féllu fram og tilbæðu virkjunarguðinn.
Í Gyðingalandi Júdas til fjárins var frekur
fann svo til iðrunar, hann væri dauðasekur.
Á Vestfjörðum ýmsa arftaka hans nú þekki
elsku Guð, viltu passa að þeir hengi sig ekki.
Geir Þorsteinsson, heiðursforseti KSÍ og Miðflokksmaður fannst sú fremd ekki nóg. Forseti sambandsins vildi hann aftur verða og ekkert múður.
Harla lítið Geir er glaður
gæfan sýndi ei fylgispekt.
Þarna steyptist Miðflokksmaður
mikið var það dásamlegt.
Nú blasir við og er altalað að Miðflokkurinn verði fjórða hjólið undir ríkisstjórnarvagninum.
Stjórnar ekki batnar bíllinn
bætist þar við Kausturskríllinn.
Senn mun eiga sætisvon
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Nú stunda forsætis- og fjármálaráðherra grjótkast úr sínum glerhúsum vegna 82% launahækkunar Landsbankastjórans en eru sjálf núbúin að hygla sér og þingmönnum óheyrilegum launahækkunum ásamt aðstoðarmannahóp og mokað er fjármunum í flokkana, allt er þetta talið um 600 milljónir króna, og alls ekki má auka skatt af þessum tekjum.
Stjórnvöld þjóðar ljá mér leiða.
Lítilmagnann svelta í hel.
En yfir ríkisbubba breiða
bómull svo þeim farnist vel.
Lýkur hér ljóðabréfi Indriða.
Hagyrðingurinn Jón Atli Játvarðsson, Reykhólum dró saman atburðarrásina undanfarið í samgöngumálum á Alþingi og vendingar sem leiddu af Klaustursumblinu.
Klausturlífið á sér enn
undur snúnar hliðar.
Ganga björg í brattir menn
með bægsli sín til hliðar.
Nefndarskipan nýstárleg
og nýtist vegabótum.
Samkenndin þó soldið treg
og sullast undan fótum.
Ríkisstjórnin reisir tjöld
rétt til einnar nætur.
Virðast ráðleg vegagjöld
í varanlegar bætur.
Klausturlífið klassa tjón
og krefst því góðrar fórnar.
Fengu að láni formann Jón
úr faðmi ríkisstjórnar.
Nefndin orðin nokkuð treg
og nár er klárinn brúni.
Loforð um að leggja veg
lendir út á túni.
Látum hér staðar numið þó með þeirri frómu ósk að framfarir í vegamálum landsmanna lendi ekki út a túni eins og Jón Atli sér fyrir sér að geti orðið raunin.
Kristinn H. Gunnarsson.