REKO er sænsk skammstöfun sem stendur fyrir sjálfbæra og heiðarlega viðskiptahætti, hugmyndafræðin kemur frá Finnlandi og er nú notuð á Norðurlöndunum, Ítalíu og Suður Afríku. REKO gengur út á að tengja bændur og smáframleiðendur við neytendur og verslunar og veitingamenn innan ákveðins svæðis. Tilgangurinn er því að efla nærsamfélagsneyslu og færa framleiðendur og kaupendur nær hver öðrum, gera matarhandverki/heimavinnslu hærra undir höfði og færa smáframleiðendur ofar í virðiskeðjuna. Vörunar eru þó ekki til sölu á staðnum heldur er um að ræða afhendingu á fyrirfram pöntuðum og greiddum vörum. Allir matvælaframleiðendur með starfsleyfi hafa leyfi til að selja vörur sínar í gegnum þessa hópa.
Skráning í svæðisbundna hópa
REKO gengur þannig fyrir sig að stofnaðir eru svæðisbundnir Facebook hópar og í þá hópa skrá sig framleiðendur sem hafa áhuga á að selja vörur sínar þar sem og neytendur og aðrir sem hafa áhuga á að kaupa af þeim. Ákveðnir eru afhendingardagar og er stofnaður viðburður í kringum hvern afhendingardag í Facebook hópunum. Inn í viðburðina setja framleiðendur inn færslur þar sem þeir tilgreina hvað þeir hafa í boði, til dæmis kjöt, fisk, egg, sjávarfang, grænmeti, brauð og kökur, osta og sultur. Jafnframt er tilgreint hvað varan kostar. Dæmi: „Er með bakka af eggjum á x krónur bakkann” Undir hverja færslu setja áhugasamir kaupendur inn athugasemd þar sem þeir tilgreina hvað þeir vilji kaupa og hve mikið. Kaupendur greiða framleiðandanum fyrir það sem þeir ætla að kaupa, fyrir afhendingardaginn. Á afhendingardeginum afhenda framleiðendur kaupendum síðan vörurnar milliliðalaust.
REKO til Vestfjarða
Núna 1. mars er þriðja afhendingin á Patreksfirði og þær fyrstu á Tálknafirði og Bíldudal. Unnið er að því að koma upp fleiri hópum á Vestfjörðum og er áhugasömum framleiðendum á Vestfjörðum bent á að hafa samband við Þórkötlu Ólafsdóttur hjá Vestfjarðastofu. Hún er með netfangið thorkatla@vestfirdir.is