Fjórir blakleikir fóru fram í 1. deild karla og kvenna á Torfnesi um helgina og var því sannkölluð blakveisla á Ísafirði.
Karlalið Vestra spilaði tvívegis á móti ungum og sprækum strákum í HK B. Fyrri leikurinn fór 3-1 fyrir Vestra. Vestramenn sýndu ekki sitt rétta andlit í fyrstu hrinunni og HK strákarnir gengu á lagið og unnu hana. Vestri vann síðan næstu þrjár hrinur nokkuð örugglega. Vestri vann svo allar þrjár hrinurnar í seinni leiknum, þar sem sáust góð tilþrif á báða bóga.
Kvennalið Vestra fékk liðin sem eru í efstu tveimur sætum deildarinnar í heimsókn. Á laugardeginum spiluðu Vestrastelpur við Aftureldingu B og töpuðu þeim leik 0-3. Fyrsta hrinan og þriðja hrinan voru jafnar og skemmtilegar en Afturelding vann aðra hrinu nokkuð afgerandi. Á sunnudeginum spiluðu stelpurnar í Vestra á móti feiknasterku liði HK B sem eru í langefsta sæti 1. deildar. HK B höfðu keyrt langt fram á nótt vegna þess að HK var að keppa í úrvalsdeild á laugardagskvöldinu og sumir leikmanna HK B koma líka við sögu þar. Ekki sást mikil þreyta á HK stelpunum og unnu þær tvær fyrstu hrinurnar nokkuð örugglega. Vestrastelpur komu hinsvegar mjög ákveðnar í 3. hrinu og enduðu á því að vinna hana eftir gífurlega baráttu. Fjórða hrinan var einnig mjög spennandi og sýndu Vestrastelpur áfram sínar bestu hliðar, sem þó dugði ekki og HK vann nauman sigur og þar með leikinn 3-1.
Þetta kemur fram á heimasíðu Vestra.