Kerecis kaupir svissneskt fyrirtæki

Íslenska fyrirtækið Kerecis er að kaupa svissneska fyrirtækið Phytoceuticals. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Dóra Hlín Gísladóttir, verkfræðingur hjá Kerecis á Ísafirði segir að kaupin muni styrkja dreifingu á vörum fyrirtækisins á markað í Evrópu.

Kerecis framleiðir vörur unnar úr þorskroði  sem skila góðum árangri við að græða þrálát sár. Þrálátum sárum hefur mjög fjölgað m.a. vegna sykursýki og verður oft að grípa til aflimana þar sem sárin vija ekki gróa.

Frá 1. mars næstkomandi mega svissneskir læknar nota vöru Kerecis Omega3 við meðferð slíkra sára. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis bendir á að í Sviss er talið að um 50.000 manns þjáist af þrálát sárum tengdum sykursýki og um 7.500 aflimanir eru framkvæmdar á hverju ári. Svissneska fyrirtækið Phytoceuticals hefur náð góðum árangri á heimamarkaði og það mun styrkja Kerecis að þessi tvö fyrirtæki vinni saman.

Fram kemur í fréttatilkynningunni að Eduardo Theiler,forstjóri Phytoceuticals er afar ánægur með fyrirhuguð viðskipti og hann segir að afurðir fyrirtækjanna eigi góða sóknarmöguleika á svissenskum markaði.

DEILA