Ísfirðingurinn Bjarki Pétursson háði sinn fyrsta MMA áhugamannabardaga í Liverpool á laugardaginn. Þar mætti hann Joey Dakin í að 83,9 kílógramma flokki í keppninni, sem var á vegum bardagasamtakanna Shinobi War. Þrátt fyrir að hafa ekki keppt áður sýndi Bjarki strax úr hverju hann er gerður og lagði andstæðing sinn að velli eftir kraftmikinn bardaga þar sem háðar voru þrjár lotur og hafði hann sigur að launum með einróma dómaraákvörðun.
Líkt og greint var frá í frétt Bæjarins besta á dögunum, þá flutti Bjarki suður yfir heiðar frá Ísafirði fyrir um þremur árum síðan til að helga sig enn frekar bardagalistinni og hefur hann æft hjá Mjölni. Hann var valinn í keppnislið þeirra fyrir tveimur árum, en bardaginn í Liverpool var fyrsti alþjóðlegi bardaginn sem Bjarki hlaut. Mótherji hans Joey Dakin er með talsvert meiri reynslu undir beltinu er hann var að keppa sinn fimmta bardaga. Annar Íslendingur, Birgir Örn Tómasson, átti einnig bardaga í Liverpool sama dag og hafði hann einnig betur gegn andstæðingi sínum og snéru því Mjölnismenn heim aftur með fullt hús stiga.
Þegar gengið er til bardaga hljóma lög sem koma eiga köppunum í gírinn fyrir átökin, sem þeir hafa sjálfir valið og vakti athygli að Bjarki gekk inn undir laginu „Stingum af“ með Mugison og sagði Bjarki í viðtali við MMA fréttir að lagið færi með hann í ferðalag aftur heim til Ísafjarðar. „Það fær mig til að muna hver ég er og af hverju ég er að þessu. Þó ég búi í Reykjavík þá verð ég alltaf Ísfirðingur!“
Bjarki er að vonum ánægður með sigurinn og segist hann hafa átt erfitt með að halda aftur af tilfinningaflóðinu sem helltist yfir hann að bardaganum loknum. Hann segist finna vel fyrir stuðningnum að heiman: „Ég vil koma á framfæri þökkum fyrir allan þann ótrúlega stuðninginn sem ég er búinn að fá. Það er virkilega gaman að heyra hversu margir fylgdust með og það gaf mér þvílíka orku að vita af öllum heima að fylgjast með! Ísfirðingar standa greinilega með sínum!“