Tvö ný störf á Hólmavík

Frá undirritun samninag um styrkina á þriðjudaginn. Jónas Guðmundsson, sýslumaður er fyrir miðri mynd og Jón Jónsson, forstöðumaður Þjóðfræðistofu honum til hægri handar.

Þriðjudaginn 5. febrúar undirritaði forstjóri Byggðastofnunar samninga vegna fjögurra verkefna sem styrk hlutu á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Styrkirnir eru vegna fjarvinnslustöðva og  heildarfjárhæð styrkja eru 60 milljónir króna.

Tvö verkefni á Vestfjörðum

Tvö af verkefnunum fjórum eru á Vestfjörðum. Sýslumaðurinn á Vestfjörðum og Þjóðfræðistofan á Ströndum fá styrk 18 milljónir króna hvor á næstu þremur árum. Jónas Guðmundsson, sýslumaður segir að sitt verkefni verði unnið á Hólmavík og að starfið verði auglýst fljótlega.

Verkefnin fjögur sem hljóta styrk eru:

  • Skönnun og skráning þinglýstra skjala. Styrkþegi Sýslumaðurinn á Vestfjörðum. Verkefnið verður styrkt um 6 m.kr. á ári í þrjú ár, samtals 18 m.kr.
  • Þjóðfræðistofan á Ströndum. Söfnun upplýsinga og skráning menningararfs. Styrkþegi Háskóli Íslands. Verkefnið verður styrkt um 6 m.kr. á ári í þrjú ár, samtals 18 m.kr.
  • Fjarvinnsla á Djúpavogi. Skráning minningarmarka. Styrkþegi Minjastofnun Íslands. Verkefnið verður styrkt um 21 m.kr.
  • Gagnagrunnur sáttanefndabóka. Styrkþegi Háskóli Íslands. Verkefnið verður styrkt um 9 m.kr.

Markmiðið með framlögum vegna fjarvinnslustöðva er annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum í landsbyggðunum. Við mat á umsóknum var stuðst við þætti eins og íbúaþróun, samsetningu atvinnulífs og atvinnustig og þróun á starfsmannafjölda viðkomandi stofnunar undanfarin ár. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna.

DEILA