Listaverkauppboð Krabbameinsfélagsins Sigurvonar hefst á miðvikudag, en félagið rær á ný mið við fjáröflun í marsmánuði er efnt verður til listaverkauppboðs hjá félaginu. Þar verður hægt að bjóða í 6 listaverk eftir fimm vestfirska listamenn. Áður höfðu þrír listamannanna verið kynntir til leiks í frétt á vef Bæjarins besta en það voru þau Pétur Guðmundsson, Berglind Halla Elíasdóttir og Ólafía Kristjánsdóttir. Hinir tveir eru ljósmyndarinn Ágúst G. Atlason sem gefur innrammaða ljósmynd og listmálarinn Reynir Torfason sem gefur tvö málverk.
Ágúst hefur verið ötull samstarfsmaður Sigurvonar síðustu ár og hefur hann gefið félaginu myndir í jólakort og dagatöl félagsins. Í umfjöllun um hann á Fésbókarsíðu krabbameinsfélagsins segir um hann: Ágúst býr og starfar á Ísafirði. Ágúst útskrifaðist sem ljósmyndari frá Medieskolerne í Viborg, í Danmörku, ágúst 2015. Hann er lærður margmiðlunarhönnuður og hefur lengi fengist við vefhönnun og almenna tölvuhönnun. Allt frá æsku hefur hann stundað ljósmyndun og haft gaman af. Áhugasvið hans er vítt og breytt og höfum við fengið að sjá það vel í verkum eftir hann.
Þá var kynntur til leiks Reynir Torfason en hann hefur í gegnum tíðina glatt íbúa á Ísafirði og gesti með reglulegu sýningum á fallegum og fjölbreyttum verkum sínum. Reynir er sjálfmenntaður í faginu og prýða verk hans veggi víða, en þau eru unnin með akrýl eða olíu á striga. Um Reyni segir í umfjöllun: Reynir byrjaði að teikna og rissa myndir þegar hann var lítill strákur en byrjaði að mála í kringum fimmtugsaldurinn. Reynir hefur ekki málað síðan 2011 og eru því myndirnar hans algjör gersemi. Reynir gefur tvö verk eftir sig til Sigurvonar og verða þau á uppboði hjá okkur nú í mars mánuði.
Stærra verkið sem Reynir gefur er landslagsfantasía, sem Reynir gerði árið 2009. Hún hefur ekki komið fyrir almannasjónir áður þar sem fram til þessa hefur hún verið á heimili Reynis. Minna verkið var gert árið 2010 og er klassískt verk listamannsins af Vestfirsku landslagi.
Uppboðið fer fram í húsakynnum Sigurvonar við Pollgötu 4 á Ísafirði og stendur það allan marsmánuð. Frekari upplýsingar um upphafsboð verður að finna á Fésbókarsíðu Sigurvonar þar sem einnig verður hægt að fylgjast með framvindu mála. Bjóða má í verkin með því að senda tölvupóst á sigurvon@snerpa.is eða senda skilaboð í gegnum fésbókina. Laugardaginn 11. mars verður opið hús þar sem boðið verður upp á kaffi og kökur, þar sem skoða má verkin, sem einnig má reyndar gera á opnunartímum félagsins.