Vegagerðin hefur vakið athygli á því að þrátt fyrir tilfærslu á fjármunum til breikkunar Vesturlandsvegar verði verklok 2022 eins og áður hafði verið ákveðið.
Í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni segir að deiliskipulag vegarins um Kjalarnes, sem var samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar, hafi verið staðfest síðast liðið sumar. „Síðan hefur verkið verið í undirbúningi og stefnt er að því að bjóða út verkhönnunina á næstunni en verkið er það viðamikið og stórt að talsverð vinna liggur í gerð útboðsgagna.“
Ennfremur segir í tilkynningunni: „Fljótlega verður einnig sent út kynningarbréf til landeigenda en samningar við þá fara fram eftir fyrirfram ákveðnu lögbundnu ferli. Ekki hafa komið upp nein vandamál, hvorki gagnvart landeigendum né öðrum verkþáttum. Reikna má með að í haust verði strax hafist handa við t.d. lagningu hliðarvega sem síðan munu nýtast til að beina umferðinni um þegar framkvæmdir verða í fullum gangi við sjálfa breikkun vegarins.“
Samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, sagði í færslu á facebook sínu sinni í gærkvöldi að hann hefði átt fundi með stjórnarliðum í þingnefndinni og Vegagerðinni til þess að tryggja að verklok myndu ekki tefjast:
„Í ljósi umræðu um Vesturlandsveg/Kjalarnes átti ég fund með meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar og fulltrúum Vegagerðarinnar vegna álitamála sem hafa verið í umræðunni. Tilefnið var að tryggja að þau áform – að þrátt fyrir minniháttar breytingar á samgönguáætlun – myndu verklok ekki tefjast og að framkvæmdirnar yrðu boðnar út á þessu ári. Áfram verður unnið að útfærslum sem leiða til þess að hægt sé að fara fyrr í endurbætur á vegakerfinu sem verða settar fram í samgönguáætlun í haust.“