Töfin sem orðið hefur á vegagerð í Gufudalssveit hefur orðið til þess að 600 milljónir króna verða færðar af fjárveitingu til verksins. Er fjárveitingin á þessu ári lækkuð um 500 milljónir króna. Er það gert til þess að mæta hagræðingarkröfu í fjárlögum um 400 milljónir króna og að auki eru 100 milljónir króna færðar í annað verkefni, sjóvarnargarð á Akranesi. Á næsta ári 2020 eru 100 milljónir færðar af fjárveitingu til vegar um Gufudalssveit í sjóvarnargarðinn á Akranesi.
Eins og málin stóðu í fyrra var búist við því að framkvæmdir við Þ-H leiðin gætu hafist í ár 2019, en það verður ekki vegna stefnubreytingar sveitarstjórnar Reykhólahrepps sem svo hefur aftur gengið til baka eins og kunnugt er.
Þetta kemur fram í breytingartillögum samgöngunefndar Alþingis við samgönguáætlun sem kynntar voru rétt fyrir helgina. Leggur nefndin til að 400 milljónum króna verði bætt við fjárveitingar til verksins á árinu 2023.
Sveitarstjórnin veldur óvissu
Í nefndarálitinu segir að óvissa ríki um það hvort og hvenær sveitarfélagið veiti framkvæmdaleyfi fyrir nýjum vegi.
„Um áramótin var 300 millj. kr. fjárveiting ársins 2018 til vegar um Gufudalssveit ónotuð. Stefnt er að því að nota hana til framkvæmda á yfirstandandi ári. Meiri hlutinn leggur því til að fjárveiting til vegagerðar um Gufudalssveit verði lækkuð um 400 millj. kr. á árinu 2019 til þess að mæta hagræðingarkröfu fjárlaga og leggur þess í stað til fjárveitingu á árinu 2023 þannig að ekki þurfi að koma til seinkunar verkloka. Enn ríkir óvissa um hvort og hvenær sveitarfélagið veitir framkvæmdaleyfi til að hefjast handa við vegagerð og leggur meiri hlutinn áherslu á að allra leiða verði leitað til að framkvæmdir geti hafist sem fyrst.“