Bolafjall: niðurstöður kynntar á morgun

Mynd af Bolafjalli. Ratsjárstöðin blasir við og fyrirhugaður útsýnisstaður. Mynd: Bolungarvik.is

Á morgun, Þriðjudaginn 5. febrúar kl.11:00 verða niðurstöður úr samkeppni um útsýnispall á Bolafjalli kynntar í sal bæjarstjórnar í Ráðhúsinu í Bolungarvík.

Keppnin var auglýst í september sl. og óskuðu 16 hönnunarteymi eftir því að taka þátt í samkeppninni og af þeim uppfylltu 15 skilyrði hönnunarteyma. Þrjú teymi voru dregin af handahófi í október og skiluðu þau inn tillögum að hönnun á útsýnispalli í desember.

Dómnefnd lauk störfum í janúar með því að velja vinningstillögu sem kynnt verður almenningi þann 5. febrúar.

Í áliti dómnefndar kemur fram að vinningstillagan sé látlaus en afar sterk hugmynd sem virðir umhverfið og ber það ekki ofurliði.

Tillagan uppfyllir markmið samkeppninnar um að gera útsýnisstaðinn á Bolafjalli að eftirsóknaverðum ferðamannastað á Vestfjörðum og þó víðar væri leitað. Hönnun pallsins býr yfir eiginleikum bæði varðandi fagurfræði og staðsetningu til þess að pallurinn verði einstakur í sínum flokki. Hann fellur vel að umhverfinu og endurspeglar í hlutföllum og útfærslu mikilfengleika þess.

Það er ljóst að útsýnispallur á Bolafjalli mun verða eitt af helstu kennileitum í ferðaþjónustu á Vestfjörðum og verður án efa einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Vestfjörðum og þótt víða væri leitað.

DEILA