Maskadagur í dag

Í dag er bolludagur og er þá til siðs þennan ágæta dag hér á landi að belgja sig út af gómsætum bollum. Kannski hefur minnkað aðeins bollumagnið eftir að börn landsins snar drógu úr flengingum á foreldrum sínum þar sem þau nældu sér í jafnmargar bollur og þau náðu að flengja sér inn áður en nývaknaðir foreldrarnir fengu rönd við reist. Reyndar er það ekki einvörðungu bolluát sem tíðkast á Ísfirði og í Bolungarvík, enda bolluveislurnar aðeins farnar að færa sig yfir á sunnudag, heldur hefur sælgætisát einnig lifað góðu lífi – því í dag er einnig maskadagur.

Að maska á bolludag, það er að klæða sig upp í ýmissa persóna og kvikinda líki, er gamall siður á Ísafirði sem hefur verið við lýði í um 150 ár, þannig að mann fram af manni hafa kynslóðirnar arkað um bæinn og sníkt sér gott í gogginn í skiptum fyrir upplýsingar um hver væri þar á ferð, því auðvitað er Jón í næsta húsi einhver allt annar á maskadaginn en hann dags daglega er. Í skólum og leikskólum eru grímuböll og þegar að kvölda tekur fer grímuklæddur flokkurinn á stjá og bankar upp á í húsum og nælir sér í góðgæti, núorðið oft í skiptum fyrir söng, þó það hafi ekki tíðkast hér áður á Ísafirði. Má því búa sig undir að sjá hinar ýmsu verur á kreiki í dag og gaman getur verið að fá að heyra hverjir eru þar á ferð og eiga eitthvað gott til að gauka að þeim að launum.

annska@bb.is

DEILA