Fyrir nokkru var haldin athyglisverð ráðstefna um fiskeldi í Eyjafirði. Þar voru fengnir fyrirlesarar um ýmis efnis sem tengjast þeirri atvinnugrein.
Erindin voru öll gagnleg og fróðleg. Mesta athyli vöktu svör fulltrúa Hafrannsóknarstofnunar við fyrirspurn um áhrifin af hafbeit um nærri 40 ára skeið þar sem um 40 milljónum seiða var sleppt. Nú um 20 árum eftir að því skeiði lauk eru lítil erfðafræðileg áhrif merkjanleg að hans sögn. Þetta þýðir að sú erfðablöndum sem kann að hafa átt sér stað hefur skolast burt á nokkrum kynslóðum laxa.
Hafbeitarlaxinn var einkum úr íslenskum stofnum og af þeim sökum eru frekar líklegra að blöndum milli hafbeitarlaxins og náttúrulegra stofna en milli fjarskyldari stofna. Hafbeitarlaxinn er ennfremur mun villtari en eldislaxinn.
þekkt er að kynbættur eldislaxinn, einkum langræktaður stofn, verður veikari í náttúrunni, framlag hans við hrygningu mun lakara og hann á sér minni afkomumöguleika.
En engin sönnun fyrir skaðsemi eldislax
Í skýrslu Veiðimálastofnunar frá 2002 segir :
„Sýnt hefur verið fram á að erfðaefni kvíalaxa blandast auðveldlega við erfðaefni náttúrulega laxa. Takmarkaðar rannsóknir eru til, sem sýna langtímabreytingar á erfðaefni náttúrulegra stofna vegna hrygningar kvíalaxa og hefur ekki verið sýnt fram á neikvæð langtímaáhrif erfðablöndunar.“
Með öðrum orðum erfðablöndun er möguleg en ekki hefur verið sýnt fram á neikvæð áhrif til lengri tíma. Nú 17 árum síðar er málið enn í sömu stöð. Ólafur Sigurgeirsson, lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum segir í nýlegri umsögn sem hann sendi inn vegna væntanlegar lagabreytinga varðandi fiskeldi, að fram komi í nýrri vísindagrein Kevin Glover og fleiri að þrátt fyrir að fyrirliggjandi upplýsingar gefi tilefni til þess að ætla að erfðablöndun eldislax við villtan lax sé ógn við náttúrulega stofna séu hins vegar engin staðfest gögn um að eldislax hafi skaðað villtan lax.
Ólafur segir í umsögninni að eftir meira en 30 ára rannsóknir hafi ekki enn tekist að sýna fram á að villta laxinum standi nein sérstök ógn af eldislaxinum.
Varúðarráðstafanir frá 1988
Þegar árið 1988 var sett reglugerð til að vernda íslenska laxastofna. Voru þar ákvæði um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna. Í reglugerðinni voru sett fjarlægðamörk til að draga úr líkum á að eldislaxar færu upp Ì laxveiðiár. Hafbeitar-, strandeldis- og sjókvíaeldisstöðvar skyldu ekki vera nær laxveiðiám með 100 laxa meðalveiði en 5 km og 15 km frá ám með yfir 500 laxa meðalveiði.
Vorið 2001 voru veittar heimildir til eldis á frjóum norskættuðum laxi á Vestfjörðum, Eyjafirði, Öxarfirði og frá Austfjörðum að Reykjanesi. Á svæðum með mesta laxveiði; Faxaflóa, Breiðafirði, Norðurlandi vestra og Norðausturlandi var tilgreint í reglugerð að slíkt eldi væri óheimilt (Auglýsing nr. 226/2001 um friðunarsvæði, þar sem eldi frjórra laxa (Salmo salar) í sjókvíum er óheimilt).
Pólitískt áhættumat Hafrannsóknarstofnunar
Sú ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar að fitja upp á svokölluðu mati á áhættu á erfðablöndun milli villts lax og eldislax hefur þann helsta tilgang að draga úr fiskeldi á Vestfjörðum. Það eru aðeins þrjár ár í Ísafjarðardjúpi sem standa undir einhverju nafni varðandi stangveiði og í þeim er fyrst og fremst ræktaður stofn. Það er því í alla staði fráleitt að stöðva uppbyggingu laxeldis á Vestfjörðum og loka Djúpinu. Áhættan á erfðablöndun er lítil og þótt hún verði eru líka litlar líkur á því að hún verði varanlega og skaðsöm fyrir þessa fáu fiska og loks þótt svo yrði þá er skaðinn vart mælanlegur í samanburði við ávinninginn fyrir land og þjóð af eldinu.
Það er beinlínis hlægilegt að velmenntaðir starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar séu að vaða stuttár upp í klof og leita að fiskum þar sem enginn laxastofn er, hefur verið og verður ekki. Fræðimenn á þessu sviði vita vel að þetta er í blóra við vísindin og ekki síður heilbrigða skynsemi. Það er langt fyrir neðan virðingu Hafrannsóknarstofnunar að vera peð í áróðursstríði öfgakenndra hagsmunaaðila.
Efnahagslegur hagsmunir hafa stórlega breyst
Þar með var búið að vernda sérstaklega villtu laxastofnana fyrir mögulegum áhrifum af laxeldi í sjó og þannig hefur þetta verið síðan, alla þessa öld. Á Vestfjörðum eru fáar ár sem standa undir því að vera laxveiðiár og segja má að friðunin hafi verið byggð á því að heimila sjókvíeldið þar sem hugsanlegur skaði á villta laxastofna yrði til þess að gera lítilvægur.
Á þessum tíma voru efnahagslegur stærðirnar á allt annan veg en nú blasir við. Tekjur af lax- og silungsveiði eru vissulega nokkrar fyrir veiðiréttarhafa um land allt. Nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands metur þær upp á 4,9 milljarða króna. Nær allar þessar tekjur falla til á landsssvæðum þar sem sjókvíaeldið er bannað.
Laxeldið er hins vegar orðið að atvinnugrein sem getur gefið slíkar tekjur að fáum óraði fyrir því árið 2001. Útflutningstekjurnar á síðasta ári voru um 13 milljarða króna. Það er nærri þrefalt meiri tekjur en af stangveiðinni. En er þó fiskeldið á byrjunarskeiði. Burðarþolsmatið á þeim svæðum sem heimilt er að stunda sjókvíaeldi en 160 þúsund tonn. Þá á eftir að meta burðarþol eða framleiðslugetu Eyjafjarðar og Jökulfjarða. Segja má að næsta víst er að framleiðslumöguleikarnir eru 200 þúsund tonn árlega eða jafnvel meira. Það gefur árlega 200 – 250 milljarða króna í nýjar útflutningstekjur. Það er meira en allar tekjur af sjávarútvegi í dag.
Lífskjörin þurfa að batna
Til þess að bæta lífskjörin á Íslandi og mæta fólksfjölgun þarf meiri tekjur og meiri framleiðslu. Sjókvíaeldið er vistvæn atvinnugrein og besta tækifærið til þess að mæta þörfinni. Fyrir Vestfirðinga yrði alger viðsnúningur í þróun byggðar. Hægt er að framleiða 70.000 – 100.000 tonn af laxi á Vestfjörðum. Íbúafjöldinn myndi tvöfaldast og byggðarlögin yrðu helsta sóknarsvæði landsins.
Kristinn H. Gunnarsson