Nýskráningar einkahlutafélaga í janúar voru 242 talsins. Síðustu 12 mánuði, frá febrúar 2016 til janúar 2017, hefur nýskráningum einkahlutafélaga fjölgað um 13% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Greint er frá þessu á vef Hagstofu Íslands.
Alls voru 2.698 ný einkahlutafélög skráð á tímabilinu, borið saman við 2.387 á fyrri 12 mánuðum. Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, þar sem þeim fjölgaði úr 179 í 278 á síðustu 12 mánuðum eða um 55%, og í flutningum og geymslu, þar sem fjölgunin var úr 44 í 68 nýskráningar eða um 55%. Í framleiðslu fækkaði nýskráningum á tímabilinu úr 94 í 84 eða um 11%.
Í janúar 2017 voru 70 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta. Gjaldþrotabeiðnum fyrirtækja síðustu 12 mánuði, frá febrúar 2016 til janúar 2017, hefur fjölgað um 84% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 1.037 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu, borið saman við 564 á fyrra tímabili.
smari@bb.is