Í gær kom út skýrsla Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutanna 2008 – 2016. Skýrslan er unnin af dr. Sigurði Jóhannessyni hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í samvinnu við Sigurð Árnason og Snorra Björn Sigurðsson á Þróunarsviði Byggðastofnunar.
Á árabilinu 2008 – 2016 varð hagvöxtur á Vestfjörðum aðeins 1% en 10% á landinu öllu. mestur varð hagvöxturinn á Suðurlandi 18% og Suðurnesjum 17%. Þá 15% á Norðurlandi eystra og 9% í höfuðborginni en 11% í kraganum. Á Norðurlandi vestra varð 11% hagvöxur. Vestfirðir, Vesturland og Austurland skera sig úr fyrir slakan hagvöxt. Aðeins 4% hagvöxtur varð á Vesturlandi, 1% á Vestfjörðum og -1% á Austurlandi.
Árin 2012 og 2013 varð hagvöxturinn á Vestfjörðum sá sami og á landsvísu. 2015 varð 5% samdráttur á Vestfjörðum en 2% á landinu öllu. 2015 og 2016 er þróunin á Vestfjörðum heldur á uppleið og ekki fjarri meðaltali á landinu og virðist uppgangur í fiskeldinu skýra það. En 34 % fiskeldisins á landinu er á Vestfjörðum árið 2016.
Framleiðsla á mann lægst
Í kaflanum um Vestfirði segir að framleiðsla á mann sé hvergi minni en á Vestfjörðum árið 2016. Það skýrist fremur af litlum fjárfestingum (sem vaxa hratt með vaxandi fiskeldi) en lágum launum. Miðgildi atvinnutekna á mann er ekki fjarri því sem gerist á landinu öllu.
Fiskeldið lækkar meðalaldurinn
Meðalaldur hækkaði um tæp 3 ár í Ísafjarðarkaupstað á tímabilinu og um 4½ ár í
Súðavíkurhreppi, 4 ár í Árneshreppi og 2½ ár í Strandabyggð. Meðalaldur er orðinn hár í
Árneshreppi, eða 47½ ár. Meðalaldur er mun lægri á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem
viðsnúningur hefur orðið, en þar fækkaði ungu fólki stöðugt fyrir nokkrum árum. Uppbygging í fiskeldi á stærstan þátt í breytingunni.
Slök afkoma vinnslunnar
Um sjávarútveginn á Vestfjörðum segir í skýrslunni:
Sjávarútvegur er aðalatvinnugreinin og er hvergi jafnmikilvæg. Mestum afla er landað á Ísafirði og í Bolungarvík. Rekstrarafkoma veiða er ekki verri en almennt gerist hér á landi, en afkoma vinnslunnar er slök. Fjárhagsstaða útgerðar var slæm framan af tímabilinu og mun verri en í öðrum landshlutum, en hún var orðin þokkaleg í lokin. Opinber þjónusta er einnig mikilvægur atvinnuvegur og er hvergi stærri en hér, að Norðurlandi vestra undanskildu. Þá er komin fram ný atvinnugrein, fiskeldi, sem vex hratt, með 3½% framleiðslunnar 2016. Greiningin nær aðeins til 2016, en fiskeldisfyrirtæki hyggja á stórsókn í þessum landshluta, eins og kunnugt er