Þann 24. febrúar féll dómur í Héraðsdómi Vestfjarða í máli héraðssaksóknara á hendur Valdimar Lúðvík Gíslasyni vegna skemmda sem hann vann á Aðalstræti 19 í Bolungarvík. Valdimar fær þriggja mánaða skilorðsbundna fangelsisvist og er gert að greiða Bolungarvíkurkaupstað rúma milljón í skaðabætur. Bolungarvíkurkaupstaður hafði lagt fram kröfu upp á rúmar fimm milljónir.
Málsatvik eru með þeim hætti að í byrjun júlí árið 2014 vann Valdimar skemmdir á húsinu við Aðalstræti með traktorsgröfu enda taldi hann það valda hættu fyrir vegfarendur. Húsfriðunarefnd hafði nokkru áður lagst gegn niðurrifi eða flutningi hússins eins og Bolungarvíkurkaupstaður hafði óskað eftir og taldi nefndin að húsið hefði umtalsvert varðveislugildi en heimilaði að því yrði eitthvað hnikað til enda stendur það langt fram í götuna. Engu að síður er gert ráð fyrir húsinu á þessum stað í deiliskipulagi sem nú er í vinnslu.
Við skýrslutöku dró Valdimar niðurstöðu Húsfriðunarnefndar í efa og taldi ósannað að húsið væri menningarminjar. „Um er að ræða kofaræksni norðan úr Aðalvík sem var reist þarna og byggt við tvívegis. Ekkert finnist um húsið fyrir 1930“ segir Valdimar við skýrslutökuna en það reyndist ekki rétt því húsinu er líst veturinn 1917-1918 á blöðum Vilmundar Jónassonar landlæknis, ennfremur kemur fram í fasteignamati að húsið hafi verið byggt árið 1909.
bryndis@bb.is