Ný samtök sem nefnast ÓFEIG náttúrurvernd létu gera fyrir sig viðamikla skýrslu um áhrifin af friðun heiðanna við Drangajökul og kynntu hana fyrir nokkrum dögum. Sérstaklega var tekið fram að friðun heiðarinnar og Hvalárvirkjun færi ekki saman. Fer ekki á milli mála að samtökin leggjast gegn Hvalárvirkjun.
Snæbjörn Guðmundsson er einn þriggja stjórnarmanna í samtökunum og segir hann að markmið þeirra sé friðun Ófeigsfjarðarheiðar. Samtökin eru opin öllum.
Samkvæmt gögnum Ríkisskattstjóra voru samtökin ÓFEIG náttúruvernd tilkynnt 24. október 2018 og eru lög samtakanna dagsett sama dag.
Formaður er Sif Konráðsdóttir og aðrir í stjórn eru Snæbjörn og Kristín Ómarsdóttir.
Í lögunum segir að markmið félagsins sé að standa vörð um óbyggð víðerni, fossa og stöðuvötn á Ófeigsfjarðarheiði á Stöndum og nágrenni til framtíðar.
Verði félaginu slitið renna eignir þess að jöfnu til Landverndar og Náttúrusamtaka Íslands.
Snæbjörn Guðmundsson var formaður Landverndar á árinu 2017. Sif Konráðsdóttir var lögfræðingur Landverndar þar til hún varð aðstoðarmaður Umhverfisráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Kristín Ómarsdóttir, er sú sama Kristín Ómarsdóttir sem færði lögheimili sitt að Dröngum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og var svo tekin af kjörskrá. Varamenn í stjórn eru Guðmundur Hörður Guðmundsson, sem var formaður Landverndar 2011-2015 og Lára Ingólfsdóttir, sem flutti lögheimili sitt frá Reykjavík að Seljanesi í Árneshreppi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og Þjóðskrá tók svo af kjörskrá.
Snæbjörn kvaðst aðspurður ekki geta svarað til um það hvað skýrslan hefði kostað en taldi víst að hún væri fjármögnuð með frjálsum framlögum einstaklinga.
Samkvæmt heimildum Bæjarins besta gæti kostnaðurinn við skýrsluna verið 2 – 3 milljónir króna.
Uppfært 17:47.