Ritsmiðja í skapandi skrifum á Ísafirði

Í byrjun marsmánaðar verður haldin fjögurra daga ritsmiðja í skapandi skrifum í Skóbúðinni á Ísafirði. Leiðbeinandi er Emma Beynon, sem er þaulreyndur kennari og rithöfundir frá Wales. Emma kennir skapandi skrif í fræðslu- og listamiðstöðinni Arts Alive í Wales. Í miðstöðinni er list notuð til að virkja, hvetja og bæta lífsgæði íbúa í hinum dreifðu byggðum á svæðinu. Hún leggur þar áherslu á að nota skapandi skrif til að auka sjálfstraust nemenda og þekkingu á velskri ljóðlist. Emma heimsótti Ísafjörð síðasta haust og dvaldi hér um hríð, þar komst hún í samband við Björgu og Vaidu í Skóbúðinni og úr varð þetta samstarf. Til gamans má geta að Emma vinnur nú að skáldsögu um ævintýri sín á norðurslóðum.

Í ritsmiðjunni fá þátttakendur leiðsögn og hvatningu í hugmyndavinnu og vinnulagi þar sem gerðar verða margskonar æfingar sem efla sköpunarkraftinn og veita innblástur. Ritsmiðjan hentar þeim sem vilja auka ritfærni sína, fá hugmyndir og innblástur. Einnig getur hún hentað kennurum sem hafa áhuga á að nota skapandi skrif í sinni vinnu. Ritsmiðjan hefst 2.mars og lýkur henni þann 5.mars. Kennt verður á ensku en þátttakendum er frjálst að skrifa á öðru tungumáli. Nánari upplýsingar og skráning: skobudin.sogur@gmail.com

annska@bb.is

DEILA