Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni segir að það hafi legið fyrir að Vegagerðin hefði ekki greitt kostnað vegna R leiðarinnar hefði sveitarstjórnin ákveðið að fara þá leið. Vísar hann þá væntanlega í ákvæði 28. greinar vegalaga sem takmarka skipulagsvald sveitarfélaga á þann veg að sveitarfélagi er óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér sem Vegagerðin leggur til.
Ef Vegagerðin fyrir hönd ríkisins vill ekki fara R leiðina getur sveitarstjórnin ekki skyldað Vegagerðina til þess að borga kostnað við aðalskipulagsbreytingar sem af því leiddi, hvað þá að borga kostnað við gerð umhverfismats og hönnunar mannvirkja.
Vegagerðin greiðir kostnað vegna aðalskipulagsbreytinga sem verða vegna leiðavals sem Vegagerðin leggur til og sveitarstjórnin fellst á. Að sögn Magnúsar greiddi Vegagerðin 6 milljónir króna til Reykhólahrepps á síðasta ári vegna þessa kostnaðar af Þ-H leiðinni. Þá eru komnir nýir reikningar og ef sveitarstjórnin hefði hætt við Þ-H leiðina liggur nokkuð ljóst fyrir að Vegagerðin færi varla að borga fleiri reikninga af kostnaði við aðalskipulagsbreytingar sem sveitarstjórnin væri búin að hafna.
Magnús Valur Jóhannsson sagði að næsta skref væri að auglýsa aðalskipulagsbreytingarnar og að lokum, líklega 14 vikum, megi búast við því að Skipulagsstofnun hafi staðfest breytingarnar. Þá mun Vegagerðin sækja um framkvæmdaleyfi fyrir Þ-H leiðinni til sveitarstjórnar. Þegar sveitarstjórnin hefur veitt leyfið opnast fyrir kærur þeirra sem hagsmuna eiga að gæta og komi þær fram fer málið til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.
Þá er næsta að ná samningum við landeigendur og ef samningar nást ekki er hægt að óska eftir eignarnámi. Vonast Vegagerðin eftir því að hægt verði að bjóða verkið út fyrir lok ársins og að framkvæmdir hefjist á næsta ári.