Á fundi bæjarráðs í gær var samþykkt tillaga um sérstaka byggingarnefnd um skipulag íþróttamannvirkja. Það voru oddvitar meirihlutans Marzellíus Sveinbjörnsson og Daníel Jakobsson sem lögðu þetta til.
Verkefni nefndarinnar verður að láta grófhanna líkamsræktar- og sundlaugaraðstöðu við Íþróttahúsið á Torfnesi á grundvelli þarfagreiningar um líkamsræktarstöð sem nú liggur fyrir og í samráði við HSV og aðra hagsmunaaðila.
Í hópnum verða þrír aðilar skipaðir af bæjarstjórn. Að auki verði HSV boðið að skipa einn áheyrnarfulltrúa. Starfsmenn nefndarinnar yrðu sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs og umhverfis- og eignasviðs eða fulltrúar af þeim sviðum eftir atvikum. Tillagan fer nú til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.
Tillögunni fylgir svohljóðandi greinargerð:
Fyrir liggur að á fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 10 m.kr. í hönnun og skipulag á Torfnessvæðinu. Nú liggur fyrir að fjölnota íþróttahús verður byggt á gervigrasvelli og núverandi keppnisvöllur er við nýbyggða stúku. Vilji Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að koma upp í áföngum á næsta áratug líkamsræktaraðstöðu og sundlaug sem tengd er íþróttahúsinu á Torfnesi þannig að þar verði sannkölluð íþróttamiðstöð. Skoða þarf einnig aðra starfsemi í húsinu s.s. hvað varðar geymsluaðstöðu, eldhús og aðra þjónustu í húsinu. Horft verði til þess sérstaklega að hægt sé að áfangaskipta verkinu.
Marzellíus Sveinbjörnsson var inntur eftir því hvort þetta þýddi að meirihlutinn væri búinn að ákveða að gera sundlaug á Torfnesinu. Hann svaraði því til að svo væri ekki, en þeir vildu gera ráð fyrir henni í skipulaginu.