Hvaða leið sem verður valin, verður samt að lagfæra Reykhólaafleggjarann á núverandi vegstæði eftir Barmahlíð að byggðinni á Reykhólum enda vegurinn fallinn á prófinu nú þegar.
Það talar enginn um veginn sem liggur áfram út Reykjanesið með fram eða í gegnum lönd þeirra bæja sem eru þar á leiðinni samtals 8 bæir i byggð. Heldur fólk að sá vegur standist öryggiskröfur i dag?
Þar fer um mjólkurbíll, póstur, akstur skólabarna og annarra íbúa á bæjunum, sem vinna að hluta til á Reykhólum.
Það er nefnilega þannig að bændur og búalið vinna mikið utan heimilis almennt í dag og sækja vinnu á Reykhólum bæði af Reykjanesinu og innan úr sveit, hjá t.d Þörungaverksmjunni, í Saltinu, Dvalarheimilinu og skólanum, þannig að vegirnir þurfa að standast kröfur og vera vel þjónustaðir svo allt gangi upp.
Umferðin í dag vestur á núverandi vegi er fyrst og fremst umferð ferðamanna innlendra sem erlendra ásamt íbúum Vesturbyggðar og Tálknafjarðar, ekki flutningabíla eins og sumir sumarhúsa-jarðareigendur hafa haldið fram.
Enda eru flestir þjónustuaðilar á leiðinni búnir að bæta aðstöðuna hjá sér undanfarin ár, eins og t.d Hótel Flókalundur að stækka um 12 herbergi, úr 15 í 27 núna í vetur/vor. Væntanlega er það gert til að hýsa ferðamenn en ekki flutningabílstjóra, því ef það hefur farið framhjá einhverjum hefur verið gríðarleg aukning á ferðamönnum á svæðinu undanfarin ár. Talið hafa bjargað þjóðinni eftir hrun með gjaldeyri, orðið stærra dæmi i þjóðarbúið en útgerðin með allan sinn kvóta fisk ef það hefur farið framhjá einhverjum.
En hvar á vegurinn að liggja? fyrir 10-15 árum vildu flestir veginn Þ-H um Teigskóg en fengu ekki. Núna eru margir sem vilja veginn hjá Reykhólum og út Reykjanesið, á eða sem næst núverandi veglínu til að koma Reykhólum nær umferðinni væntanlega til að geta þjónustað ferðamenn innlenda sem erlenda ekki bara flutningabíla enda lifir enginn á því svo fáir eru þeir hér um slóðir og hafa ekki haldið vöku fyrir neinum á þessum slóðum frekar en fólkinu á Patreksfirði þar sem vegurinn til Tálknafjarðar og Bíldudals liggur við Patreksjarðarbæ milli Aðalstrætis og kirkjugarðsinns þar, ef fólk áttar sig ekki á því. Og þá eru farartálmar eftir þar á bæ, vegurinn um Mikladal, Hálfdán og Kleifaheiði. Af hverju hefur ekkert gerst þar, t.d sameina sveitarfélögin þar og þrýsta á betri vegi heima i héraði?
Og þá er ótalinn fjallvegurinn yfir Klettháls sem er erfitt er að þjónusta á veturnar enda er það tryggingin fyrir rekstri Baldurs yfir Breiðafjörðinn i Stykkishólm. En ég hef ekki heyrt að nokkur hafi kvartað yfir umferðinni i Stykkishólmi enda einungis reynt að þjónusta ferðafólkið.
En varðandi veginn gegnum Reykhólasveitinna hef ég bent á og skrifað að I leiðin sem liggur sunnanmegin í Þorskafirði með brú yfir á Hallsteinsnes framhjá Teigsskógi og áfram yfir Djúpafjörð og Gufufjörð á Þ-H leið. Með vegtengingu í Bjarkalund og fyrir Reykjanesið í Reykhóla, Þá er komin hringtenging um Reykjanesið og búið er að fara með leiðina í umhverfismat, hannað og teiknað af Vegagerðinni en örlítið dýrara en Þ-H. Þá geta þeir sem ferðast valið að fá sér veitingar i Bjarkalundi eða Reykhólum sumar sem vetur ef fært er yfir Klettsháls, eða tekið Baldur áfram og fengið sér veitingar i Stykkishólmi.
Það þarf enginn að halda það að skipið verði lagt af á meðan Klettháls er ekki lagaður eða boraður, það vitum við sem keyrum eða þjónustum vegina.
En kannski eru ljón á veginum á I eins og á ÞH og R?
Það er nefnilega þannig, það vilja allir veg en enginn vill hafa hann.
Með kveðju
Gunnbjörn Óli Jóhannsson