Tálknafjörður: byggðakvóti fjármagni dvalarheimili

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tók fyrir á fundi sínum í gær að ákveða reglur um úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.

Samþykkt var tillaga með fjórum atkvæðum gegn einu um að falla frá vinnsluskyldu á byggðakvótanum, en skylt hefur verið að landa aflanum til vinnslu í Vestur Barðastrandarsýslu, gegn því að 20 kr af hverju kg byggðakvóta renni til sveitarfélagsins sem  fari í sérstakan sjóð, sem hugsaður er til uppbyggingar dvalarheimilis á Tálknafirði. Með þessu telur sveitarstjórn að byggðakvótinn komi að notum fyrir alla íbúa, þ.e.a.s. samfélagið í heild.

Fallist útgerðaraðilar ekki á þessa tilhögun verður áfram vinnsluskylda eins og verið hefur. Auk þessarar samþykktar um gjaldtökuna leggur sveitarstjónin til að landa verði aflanum í Tálknafjarðarhöfn og að hluti byggðakvótans skiptist jafnt milli allra báta.

Rökstuðningur meirihluti sveitarstjórnar, lista óháðra,  fyrir þessu fyrirkomulagi varðandi gjaldtökuna  er:

„Fallið verði frá vinnsluskyldu afla skv. úthlutuðum byggðakvóta, að því gefnu að allir
útgerðaraðilar, sem fá úthlutaðan byggðakvóta, fallist á að greiða kr. 20.00 af hverju
þorskkílói, sem landað er af úthlutuðum byggðakvóta. Þessir peningar fari í sérstakan
sjóð, sem hugsaður er til uppbyggingar dvalarheimilis á Tálknafirði. Sveitarstjórn telur
að með því að byggja upp dvalarheimili á staðnum sé stuðlað að því að fólk sem ekki
getur lengur haldið heimili þurfi ekki að flytja burt úr sveitarfélaginu, annaðhvort til
Reykjavíkur eða á sjúkrahúsið á Patreksfirði, sem er eina úrræðið á svæðinu. Ennfremur
er augljóst að með þessu skapast fjölmörg störf sem gæti þýtt fjölgun í sveitarfélaginu.
Með þessu telur sveitarstjórn að byggðakvótinn komi að notum fyrir alla íbúa, þ.e.a.s.
samfélagið í heild.“

Minnihluti hreppsnefndar, Jóhann Örn Hreiðarsson, fyrir hönd E lista, var ósammála þessari breytingu og greiddi atkvæði gegn henni. Segir í bókun hans að mótmælt sé því „að tengja framlög til dvalarheimilis við afnám vinnsluskyldu á byggðakvóta Tálknafjarðarhrepps. Slík tenging þýðir auknar álögur á útgerðir sem nú þegar eru að greiða háar upphæðir í auðlindagjöld til ríkisins.“ Segir ennfremur að þessi afstaða meirihlutans lýsi algeru skilningsleysi á mikilvægi byggðakvóta fyrir afkomu minni útgerða og lýst yfir alvarlegum áhyggjum af atvinnumálum í sveitarfélaginu.

DEILA