Krónan veiktist um 6,4% í fyrra

Krónan veiktist í fyrra um 6,4%. Þetta er annað árið í röð sem krónan veikist gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Árið 2017 veiktist krónan um 0,7%.  Þessar upplýsingar koma fram í Hagsjá, rafrænu fréttabréfi sem hagdeild Landsbankans gefur út.  Síðustu fjögur árin þar á undan hafði krónan styrkst á hverju ári og styrktist hún um 18,4% yfir árið 2016. Það var mesta styrking krónunnar gagnvart viðskiptaveginni myntkörfu í íslenskri hagsögu.

Veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum

Gjaldmiðlar allra helstu viðskiptalanda okkar styrktust gagnvart íslensku krónunni á síðasta ári. Af einstökum gjaldmiðlum styrktist gengi japanska jensins mest gagnvart krónunni, eða um 13,9%. Styrking Bandaríkjadollars var næst mest, eða 11,4% en þar á eftir kom svissneski frankinn með 10,4% styrkingu. Minnst var styrking sænsku krónunnar (2,4%) og Kanadadollars (2,6%).

Raungengi krónunnar  enn hátt

Þrátt fyrir þessa lækkun á nafn- og raungengi er gengi krónunnar enn tiltölulega sterkt á mælikvarða raungengis sé horft aftur til ársins 1980. Síðan þá hefur raungengið verið lægra en það var í desember um 80% af tímabilinu.

DEILA